144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar. Þær eru mjög mikilvægar. Ég var að hlusta á ákaflega fróðlegan þátt á BBC í vikunni þar sem fjallað var um rannsókn á hvaða áhrif auðlegð hefði á fólk, fólk sem væri valdamikið og/eða ætti mikla peninga, hvernig það breytti fólki. Ein rannsóknin var þannig að fólk var spurt hver ætti mestan rétt á að fara í fyrsta bátinn á Titanic. Ríka og valdamikla fólkinu fannst að það ætti heimtingu á að fara fyrst, ekkert endilega út af neinu öðru en bara því að það leit svo á að það hefði æðri tilverurétt. Eins var fólk beðið um að teikna sjálft sig eftir því hversu ríkt það væri eða valdamikið. Þeir sem voru ríkastir teiknuðu stærstu bóluna í kringum sjálfa sig. Það er líka staðreynd að þeir sem eiga mest gefa yfirleitt minnst, það þarf engar rannsóknir til þess að komast að þeirri niðurstöðu, maður þarf bara að sjá það. Þeir sem eru fátækir eru örlátastir. Stefna formanns fjárlaganefndar, sem smitast hefur yfir í utanríkisráðuneytið og til ráðherrans, um að skera niður þegar vel viðrar hjá okkur er alveg í takt við svona sjúka hugsun. Það er átakanlegt að geta gefið ekki fátækustu meðbræðrum sínum leið út úr örbirgðinni með þróunarsamvinnu. Ég ætla að svara hinni spurningunni um Þróunarsamvinnustofnun betur á eftir, ég er búin með sekúndurnar mínar.