144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er margt sem við þurfum að spyrja hæstv. samstarfsmálaráðherra Norðurlanda um á eftir. Það verður örugglega miklu þyngri umræða en þessi hér. Það orkar margt tvímælis þegar maður les þá skýrslu.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um stefnu hv. þingmanns og flokks hennar til Atlantshafsbandalagsins, mér er hún mætavel kunn. Það er aðeins af því ég er talsmaður beins lýðræðis sem ég vildi árétta að það er stefna flokksins að gera það gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mér er Evrópustefna ríkisstjórnarinnar hugleikin. Ég minnist þess mjög vel þegar hún var kynnt og það rann upp fyrir mér að ekki átti að kynna hana í utanríkismálanefnd. Af því dró ég þá ályktun að hún félli samkvæmt skilgreiningu undir minni háttar utanríkismál og gerði mér ekki frekari rellu út af því.

Hins vegar höfum við á þessum degi, í andsvari við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, hlustað á hæstv. utanríkisráðherra lýsa gjaldþroti þeirrar stefnu. Það var hér fyrr í dag. Hæstv. ráðherra gekkst við því að hann hefði engan mannafla og að það hefðu verið teknir af honum peningar til að standa undir rekstri samningsins. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem núna gegnir stöðu æðsta manns okkar hjá Eftirlitsstofnun EFTA, hefur lýst því og farið mikinn í fjölmiðlum síðustu daga um að EES-samningurinn sé rekald, honum sé ekki sinnt, honum sé féskylft og Íslendingar notfæri sér ekki þau færi sem hann gefur, Íslendingar sinni ekki hagsmunum sínum. Það var aðall Evrópustefnu hæstv. ríkisstjórnar að við ættum að leggja sérstaklega á okkur til að sinna hagsmunagæslu innan hans. Það hefur komið fram að það er ekki gert af því að hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki hafa burði til þess að fá tækin sem til þarf.

Þá er komið að hagsmunum Íslands. Ég og hv. þingmaður, sem sitjum í utanríkismálanefnd, eigum að beita framkvæmdarvaldið aðhaldi ef það sinnir ekki hagsmunum Íslands. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hún ekki rétt að við köllum fyrir nefndina Sverri Hauk Gunnlaugsson og fáum viðhorf hans og fáum ráðherrann til nefndarinnar líka til þess að greina okkur frá því með hvaða hætti (Forseti hringir.) verið er að rækja eða vanrækja hagsmuni Íslands?