144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki frekar en aðrir menn lausn á reiðum höndum, alls ekki. En það er kannski nálgunin sem getur skipt máli. Förum við þá leið sem lögð er til hér og lögð hefur verið til í NATO, að efla herstyrkinn, vopnvæðast og vígbúast? Er það sú leið sem við viljum fara? Eða viljum við reyna að stuðla að samningum og að fólk tali saman, til dæmis á þingi Evrópuráðsins?

Á sama tíma og verið var að úthýsa Rússum þaðan var verið að banna kommúnistaflokkinn. Og bara þá dagana sem þetta var að gerast, þessi umræða átti sér stað á þingi Evrópuráðsins, sáum við myndir af því þegar formaður kommúnistaflokksins — og það er enginn ofbeldismaður, það er maður sem hafði fengið milljónir atkvæða í kosningum, menn kunna að vera ekki sáttir við allt sem hann segir, en hann fékk milljónir atkvæða í kosningum — var barinn í ræðustól þingsins af ofbeldissveitum. Og um þetta ofbeldi er rækilega þagað á Vesturlöndum, rækilega þagað, vegna þess að við erum að komast inn í tíma sem eru allt of nærri okkur og við megum ekki fara inn í þá tíma.

Þegar ég sé skýrslu og heyri um skýrslu eins og þá sem við erum með hérna fyrir framan okkur með svona einsleitan tón þá verð ég banginn. Ég er ekki að bera blak af Rússum. Ég treysti aldrei manni sem var yfir sovésku leyniþjónustunni í kúguðu landi, Austur-Þýskalandi. Það mun ég aldrei gera. En ég vil ekki láta toga mig út á slóðir kalda stríðsins að nýju. Verið að gera það og það er tónninn í þessari skýrslu.