144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nokkuð ljóst að ég og hv. þm. Birgir Ármannsson erum töluvert ósammála og höfum mjög ólíka sýn á það sem er að gerast í Úkraínu og á Krímskaga.

Ég hef áhyggjur af því sem er að gerast þarna vegna þess að það er að verða aukinn núningur og aukin átök á milli Rússlands og NATO og einmitt á þessu svæði. Ég hef áhyggjur af því að þetta leiði okkur inn í nýja tíma með nýju vígbúnaðarkapphlaupi. NATO hefur verið að fikra sig nær Rússlandi með hersveitum úti um allt í kringum Rússland og þar með er staðan í alþjóðamálum breytt frá því sem var hér fyrst eftir að kalda stríðinu lauk. Ég hef áhyggjur af því að þetta leiði til stigmögnunar og þar þurfi báðir aðilar, þ.e. bæði Rússar sem og NATO, að taka skref til þess að bakka. Það sé ekki bara hægt að skella allri ábyrgð á annan aðilann heldur verðum við að líta til þess hvernig sé hægt að bakka úr því ástandi sem við erum komin í.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður deilir þeim áhyggjum með mér að við séum að færast í átt til aukinnar spennu í alþjóðasamskiptum og þá ekki einungis með átökum í Miðausturlöndum heldur einnig í Evrópu og hér á jaðrinum hjá okkur sem einmitt endurspeglast í Úkraínu. Ég veit ekki hvort við erum sammála um að það sé mál til að hafa áhyggjur af.