144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Já, ég leyfi mér örlítið að efast um það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé mjög áhyggjufullur yfir framtíð Sjálfstæðisflokksins (ÖS: Mjög áhyggjufullur.) og sé að missa svefn yfir því að einhver vandræði gætu orðið á okkar bæ. En það er aukaatriði.

Þjóðin verður eðli máls samkvæmt að hafa aðkomu að málinu. Það segir sig sjálft. Ég var þeirrar skoðunar og hef verið þeirrar skoðunar að best væri að þeir flokkar sem telja að Ísland eigi að fara í Evrópusambandið segi frá því. Það á að vera kosningamál og ef þeir fá umboð til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þá eigi þeir að gera það og koma með samninginn sem þjóðin greiði atkvæði um.

En ég á mér þann draum að við tökum málefnalega umræðu um Evrópusambandið. Hvað felst í að vera í Evrópusambandinu? (Gripið fram í: Þú hefur aldrei getað það.) Það sem ég skil ekki, virðulegi forseti, af hverju sést alltaf undir iljarnar á aðildarsinnum sem vilja ekki kannast við að vera aðildarsinnar? Nema einn. Það er einn hv. þingmaður á Alþingi Íslendinga, einn af 63, sem hefur opinberlega viðurkennt að vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið. Nú er ég ekki að segja mönnum hvaða skoðun þeir eigi að hafa, það er ágætisfólk sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið, en það er ekki hægt að taka þessa umræðu nema að við nálgumst hana út frá staðreyndum. Það er bara ekki hægt. (Gripið fram í: Við þurfum þær á borðið.) Þetta er akkúrat — nú segja menn að það sé ekki hægt að fá staðreyndir á borðið nema klára samningana. Hvað halda menn að samningurinn sé? Halda menn að hann komist fyrir á A4-blaði? Ef menn geta ekki tekið umræðu um hvað felst í að vera í Evrópusambandinu, sem kemur fram í þessum skýrslum, hvernig ætla menn þá að gera það því að aðildarsamningurinn er jafn þykkur og símaskráin? Halda menn að þeir geti gert eitthvað betur þá? Auðvitað vita menn nákvæmlega hvað felst í að vera í Evrópusambandinu. Og af hverju vilja þeir sem hér tala fyrir því að kíkja í pakkann ekki taka þá umræðu? Af hverju ekki? Þora þeir það ekki?