144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að skoða hvernig við vinnum að þessu í þinginu. Á síðasta kjörtímabili var gerð breyting á því hvernig farið er yfir allar EES-gerðir í þinginu. Ég held að það sé svolítið þannig að þingmenn vilja ekki alveg átta sig á því hvað EES-samningurinn er. EES-samningurinn er þannig að við getum haft einhver áhrif á fyrstu metrunum. Þá er málið ekkert í þinginu. Þá eru kannski margir mánuðir eða ár þangað til það kemur inn í þingið. Í eðli sínu er EES-samningurinn þannig að þingið hér getur ekki haft mikil áhrif á það. Ég held að þingmenn geri svolítið mikið úr því hvað þeir geti haft mikil áhrif og þess vegna dragist meðferðin oft mjög á langinn í þinginu. Norskur þingmaður sagði, ég heyrði alla vega ekki betur: Þegar við fáum þessar EES-gerðir þá bara stimplum við þær. Það er í raun örfá atriði sem við getum haft áhrif á, mjög fá. En í því felst munurinn á því að vera í Evrópusambandinu og að vera í EES. Ef þú ert í Evrópusambandinu hefurðu áhrif á löggjöfina, þá ertu inni í herbergjunum, þá ertu þar sem ákvarðanir eru teknar, en þegar við erum í EES erum við bara í togi. Það er miklu meira fullveldisafsal að vera í EES en í Evrópusambandinu. Ég þarf ekki einu sinni að útskýra það fyrir hv. þingmanni. Hann veit það en vill ekki viðurkenna að hann viti það. Hann vill nefnilega ekki viðurkenna (Forseti hringir.) hvað hann veit mikið um Evrópusambandið.