144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að að þessu leyti fari sjónarmið okkar nokkuð saman þótt okkur kunni að greina á um önnur mál.

Varðandi það hvernig við lagfærum núverandi fyrirkomulag erum við í ákveðnu ferli, eða við getum sagt að við séum að læra samhliða því að við framkvæmum hér í þinginu. Ég get upplýst hv. þingmann um að málahali af þeim málum sem hingað koma í þingið og varða skoðun mála á fyrri stigum hefur styst töluvert í vetur. Það hefur verið gengið nokkuð skipulega í það og eins passað betur upp á það en áður að reka á eftir öðrum fagnefndum þingsins sem hafa fengið mál til meðferðar að ganga frá þeim málum.

Það sem snýr að okkur í þinginu er auðvitað bara ein hliðin á þessu, það sem snýr að stjórnkerfinu er annað. Þar glíma menn við bæði mannfæð, skort á forgangsröðun og eitthvað hér og þar í ráðuneytunum, vegna þess að þrátt fyrir að utanríkisráðuneytið beri meginábyrgð á framkvæmd samningsins kemur innleiðing eða undirbúningur að innleiðingu inn í öll ráðuneytin, hvert á sínu málefnasviði. Þar hefur í sumum tilvikum myndast hali. Þetta er spurningin um að samþætta þetta.

Til að ljúka umræðunni um framkvæmdina á EES-samningnum af minni hálfu vildi ég segja að ég get tekið undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir, (Forseti hringir.) að samhliða því að laga fyrirkomulagið og slípa það betur til þurfum við að vera meðvitaðri um að við þurfum að forgangsraða, skoða hvaða mál (Forseti hringir.) það eru sem raunverulega skiptir máli að við veitum athygli, skoðun, (Forseti hringir.) og verja þá tímanum fjármununum og mannaflanum í að sinna þeim frekar en öðrum.