144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með söguna alveg á þessum nótum í mínum huga. EFTA og upphaflega Evrópusambandið, Evrópubandalagið, voru tollabandalög og EFTA var það lengur. Síðan hafa þau og þá í gegnum EES-samninginn, líka EFTA-ríkin eða þau sem eiga aðild að honum, verið að þróast yfir í innri markað með samræmdu regluverki á grunni markaðarins. Það er það sem hefur verið að gerast og við mörg að gagnrýna sem höfum verið andvíg því að fara þar inn og ekki síst í ljósi þess hve margir þættir viðskiptalífsins og samfélagsþjónustu hafa verið sogaðir inn í þetta kerfi. Það hefur verið okkar eða alla vega mín gagnrýni.

Varðandi þriðja heiminn eða fátækari hluta heimsins sem mat það sjálfur svo að GATS-samningarnir, eins og þeir voru lagðir upp, væru of ágengir gagnvart innviðum þeirra og eigin lýðræði. Það var það, þeir vildu ekki hleypa alþjóðafjármagninu inn á gafl til sín þegar í ofanálag kemur krafa um að færa álitamál sem upp kunna að koma í gerðardóm þar sem dómsvaldið í þeim ríkjum kemst ekki að, það er kveðið á um það í þessum samningum. Og annað sem er enn alvarlegra og alvarlegast af öllu er að það sem á annað borð er samið um í GATS, og það sama á við um TiSA-samningana, er ekki óafturkræft. Ef ríki ætlar að draga til baka einhvern þáttinn sem samið hefur verið um þá er hægt að stefna því fyrir dóm og krefja það um skaðabætur. Þetta hefur gerst. Ég held (Forseti hringir.) að það hafi verið Bólivía og einhver önnur ríki sem hafi reynt þetta.