144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessar tölur hafa að hluta til verið að fæðast yfir tíma og í frumvarpinu er viðleitni til að samræma fjárhæðarviðmiðið. Að einhverju marki þarf þingið að taka afstöðu til þess hvað er hæfilegt. Ég vék að því í máli mínu að eðlilegt er að fjárhæðir af þessum toga fylgi að einhverju leyti verðlagsþróun í landinu.

Ég vek jafnframt athygli á því að þessi fjárhæðarviðmið breyta því ekki að Fjármálaeftirlitið getur ákvarðað aðilum tvöfalda þá fjárhæð sem menn hafa haft í ávinning eða það sem þeir hafa forðað af tapi með ólögmætum gjörningi. En eitt meginatriði þessa máls er einmitt það sem hv. þingmaður vék að, sem er að gera eftirlitsaðilum kleift að ljúka málum, jafnvel þótt við mundum geta verið sammála um að þau væru þó nokkuð alvarleg, en að smærri málin geti fengið lyktir með stjórnarsektum en ekki með útgáfu ákæru.