144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Líklega hitti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon naglann á höfuðið þegar hann sagði að það sem skorti hugsanlega í þessi lög væru harðari stjórnvaldsviðurlög gagnvart því að fjármálafyrirtæki á markaði sendu frá sér rangar upplýsingar. Þegar um er að ræða að einstaklingar eða þeir sem fara með stóra eignarhluti í fjármálafyrirtækjum reyna að dylja um tengsl sín þá ætti það auðvitað að sæta alveg sérstaklega hörðum sektum og jafnvel refsingum. Ég er sammála honum um það.

Kannski skiptir reynslan mestu máli. Ég er þeirrar skoðunar að með þeirri dýrkeyptu reynslu sem við heyjuðum okkur nauðug viljug haustið 2008 og með þeim tækjum sem er að finna í þessu frumvarpi þá muni mönnum í framtíðinni ganga betur að ráða niðurlögum atburðarásar sem við sáum gerast og gátum ekki gripið inn í vegna þess að það var komið langt fram yfir alla mögulega viðbragðstíma haustið 2008. Ég held að að því leytinu til sé að finna hér stór og jákvæð skref í þessu frumvarpi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stærsti ljóðurinn á því sé sá að það vantar inn í það sem hvarvetna er að ryðja sér til rúms í löggjöf og reglum nágrannaríkjanna, a.m.k. í Vestur-Evrópu, og það er tæki sem má kalla að sé sérstaklega hannað ferli fyrir afhjúpanir. Það kemur í ljós þegar menn skoða hvernig því er beitt í Bretlandi að það skiptir miklu máli og ræður mjög miklu um framvindu stórra mála sem Serious Fraud Office, svo ég leyfi mér að nota engilsaxnesku, hefur tekið á (Forseti hringir.) undanfarið. Er ekki hv. þingmaður þeirrar skoðunar að þetta sé jafnvel það (Forseti hringir.) sem þarf helst að skoða við umfjöllun á þessu máli?