144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hefði mjög mikið varnargildi eða aðhaldsgildi ef menn vissu að þeir sem gerðu uppljóst um eitthvert misferli eða eitthvað sem miður færi nytu verndar, sennilega ekki síður en tilvist harðra sektarákvæða eða annarra slíkra viðurlaga er ætlað að hafa slík varnaráhrif eins og kunnugt er. Það þyrfti auðvitað að líta til þess gagnvart hverju brotin væru.

Við megum ekki gleyma því að sem betur fer er búið að taka á ýmsu sem var ekki bannað og átti sinn þátt í að búa til þessar hættulegu og stóru stöður því að löggjöf okkar var stórkostlega áfátt, t.d. varðandi skýrari skilgreiningu á ráðandi hlut og varðandi það að áður en því var breytt eftir hrun gátu menn setið í stjórnum margra fjármálafyrirtækja og fært trúnaðarupplýsingar á milli. Nú er það bannað. Enginn getur setið í stjórn nema eins eftirlitsskylds aðila. Við settum skorður við lánveitendum til eigenda og tengdra aðila. Sumir vilja fara að slaka á því heyrist mér. Ýmiss konar ákvæði sem snúa að regluvörslu, eftirliti, endurskoðun og öðru slíku hafa verið styrkt frá því sem var. Þetta að viðbættum ákvæðum fyrir uppljóstrara væri held ég góð viðbót við þau refsiákvæði sem eru aðallega undir í þessu máli og snýr að því sem vofir yfir mönnum ef þeir fara ekki að lögum og reglum.

Í grunninn þurfum við alltaf að nálgast þetta á forstigi mála og tryggja að löggjöfin sjálf setji skorður við (Forseti hringir.) hættulegum ákvörðunum og vafasamri starfsemi eins og kostur er því að við viljum stunda (Forseti hringir.) forvarnir ekkert síður en hafa hér öflugt slökkvilið ef kviknar í.