144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Í sjálfu sér finnst mér ánægjulegt við þetta frumvarp að þar eru lagðar til auknar eftirlitsheimildir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið sérlega hlynntur, hefur frekar talað um að draga úr hinum svokallaða eftirlitsiðnaði.

Á bls. 11 kemur nefnilega fram, með leyfi forseta:

„Veltutengingu sekta er ætlað að tryggja að hlutfallslegt samræmi sé á milli álagningar stjórnvaldssekta á lögaðila og stærðar þeirra en getur þó orðið þess valdandi að sektarfjárhæðin verður hærri en heimildir eru fyrir í gildandi lögum.“

Svo er talað um að stíga varlega til jarðar og að eftirlitsstjórnvöldin verði að meta hvenær tilefni sé til að veltutengja sektir vegna slíkra brota og talað um að horfa til annarra Norðurlandaþjóða og hvernig ríki ESB muni beita heimildinni. Mér finnst þetta vera töluvert matskennt í sjálfu sér þrátt fyrir hámörk og lágmörk sem hér eru.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annað sem kemur fram í 4. lið um hækkun á refsiramma laga um fjármálafyrirtæki þar sem rætt er um að unnið sé að frekari breytingum á löggjöf fjármálamarkaðarins innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem styrkja eigi innviði fjármálakerfisins. Mig langar að spyrja hv. þingmann um vangaveltur hans í því samhengi, hvað hann telur að standi eftir og þurfi fyrir utan uppljóstrunina að styrkja frekar í sambandi við löggjöfina á fjármálamarkaðnum sem hér er verið að ýja að.