144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að ræða þetta frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Mér verður hugsað til þess að það kom í fréttum fyrir helgina að fáir væru í þingsal þegar tiltekin mál væru rædd og stundum enginn. Maður reyndi að bera blak af þingmönnum, að þeir gætu verið staddir á ýmsum stöðum, en þegar ég kom fyrst inn á þing fannst mér alltaf svolítið sérkennilegt hvað fáir voru í þingsal þegar verið var að ræða t.d. fjárlög eða einhver fjármálatengd efni. Ég get tekið undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þegar hún talaði hér áðan um að mál sem snúa að fjármálaumgjörð samfélagsins eru auðvitað mál sem við þurfum að læra svolítið á og fylgjast vel með, lagarammanum þar, því þetta skiptir okkur öll afar miklu máli.

Það sem hér er undir er ágætisfrumvarp og ánægjulegt að sjá að töluvert er vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis því það er jú plagg sem við ættum að kannski ræða hér enn meira og taka oftar til umræðu og gera fleiri betrumbætur á málum í samræmi við hana en við höfum þó þegar gert. Eins og hér hefur verið rakið aðeins í dag er búið að koma til móts við mjög margt af því sem þar var gagnrýnt eftir fall fjármálakerfisins. Við þurfum að halda áfram að sinna því sem út úr því stóra verkefni kom og læra af reynslunni sem varð til eftir bankahrun. Ég held að við þingmenn eigum að gefa því meiri gaum því sem snýr að fjármálum ríkisins en kannski allmargir gera. Auðvitað er þetta flókið, en það er verkefni sem þarf að takast á við.

Ég ætla að fara ofan í þetta frumvarp eins og það kemur fyrir og reyna að átta mig á því um hvað málið snýst.

Í 7. gr., sem snýst um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, er m.a. talið upp til hvers eigi að taka tillit þegar teknar eru ákvarðanir um stjórnvaldssektir. Hér áðan var rætt um hvort stjórnvaldssektir ættu að vera sambærilegar hvort sem um væri að ræða brot sem framið væri af ásetningi eða gáleysi og þeim þingmanni sem hér talaði á undan mér fannst að taka ætti enn harðar á þeim brotum sem framin væru af ásetningi fremur en gáleysi. Það er í sjálfu sér alveg hægt að taka undir það þótt það geti orðið, eins og ég sagði áðan, matskennt á einhverjum tímapunkti.

Það er gott við þetta frumvarp, eins og kemur fram í 9. gr., að gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögunum, þ.e. hafi einhver innan fyrirtækisins eða stofnunar gerst brotlegur við þau og unnið refsiverðan og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans má sekta lögaðilann. Hér er í sjálfu sér verið að stoppa í gat og er vel.

Í athugasemdum er farið yfir hvert verkefnið með frumvarpinu var í rauninni og það talið upp í fjórum atriðum. Það var að yfirfara fjárhæðir stjórnvaldssekta og fésekta, velta því upp hvort ástæða væri til þess að setja heimildir í lög til þess að veltutengja sektirnar, hvort setja ætti reglur um uppljóstrun og hvort ástæða væri til þess að styrkja heimildir laga til þess að refsa lögaðilum fyrir brot á þeim lögum sem nefndinni bar að skoða.

Eins og hér var komið inn á áðan var lagt til að styrkja í raun flest af því sem þarna kom fram nema það sem sneri að uppljóstrun. Það hefur í sjálfu sér verið farið mjög ítarlega yfir það og ráðherrann taldi að það væri í lagi að frumvarpið færi í gegn þrátt fyrir ekki væru gerðar breytingar varðandi uppljóstrun. Um það eru auðvitað skiptar skoðanir. Það er mjög mikilvægt að við höfum tæki og tól til þess að nýta okkur það eins og við þekkjum úr umræðunni um mál eins og t.d. skattaskjól og annað því um líkt sem snúa að almannahag. Við höfum þau tæki ekki að öllu leyti fyrst breytingar eru ekki teknar inn hér, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Síðan er ástæða til þess að velta fyrir sér eftirliti og viðurlögum af því að hér er vitnað til, eins og ég sagði áðan, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og fall íslensku bankanna. Hér er tekið fram að það hafi verið nægjanlegar eftirlitsheimildir til handa Fjármálaeftirlitinu og rannsóknarnefndin tekur fram að hún telji að í raun hafi of fáum málum verið lokið með beitingu valdheimilda, m.a. stjórnvaldssekta. Því má eiginlega spyrja hvort hér bætist við eitthvað til að styrkja það að Fjármálaeftirlitið standi betur að vígi nú en áður til þess að takast á við þessi mál. Sneri vandinn að mannahaldi eða, eins og hér var komið inn á áðan, var virkilega hægt að blekkja svo ægilega eins og raun varð á? Hvað verður til þess að samfélagið verður allt saman svona samdauna ástandinu og meira að segja eftirlit eins og Fjármálaeftirlitið sem við viljum svolítið trúa að standi vaktina nær ekki utan um það verkefni? Þetta er auðvitað mikilvægt eins og hér er komið inn á í greinargerðinni vegna þess að við þurfum að byggja upp traust og trúverðugleika fjármálamarkaðarins. Við sjáum að það er mjög brotið enn þá og öll fjármálastarfsemi og bankar sérstaklega eru alla jafna í daglegu tali ekki vel umtalaðar stofnanir.

Síðan er fjallað um að það þurfi að vera hægt að beita stjórnvaldssektum af því að það ferli taki styttri tíma, ég hugsa að það sé alveg rétt, og tilgangi sínum eigi þær að ná með því að hafa þær nógu háar. Síðan er bent á að það þurfi að endurskoða reglulega og hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að eðlilegt væri að slíkt væri gert. Það held ég að sé rétt með tilliti til þeirrar þróunar sem á sér stað í samfélaginu.

Hér er talað um að innleiðing þessara gerða, en hér er auðvitað verið að vinna með EES-gerðir, muni taka tíma en lögð er á það áhersla að það eigi samt að reyna að samræma þennan ramma sem mest á Evrópska efnahagssvæðinu til að koma í veg fyrir freistnivanda þannig að fyrirtæki fari ekki úr landi, velji sér að starfa í einhverju tilteknu EES-ríki fremur en öðru þar sem eru vægari viðurlög. Það má velta því fyrir sér af því að hér er líka talað um að bíða og fylgjast með því hvað nágrannalönd okkar gera.

Hér hefur verið rakið að veltutenging sektanna geti orðið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs. Það er örugglega jafn ágætt viðmið og hvert annað þótt hér hafi því ekki verið svarað hvernig sú prósenta kom til eða aðrar þær fjárhæðir sem eru í frumvarpinu. Ráðherra gat í sjálfu sér ekki svarað því. En hins vegar er þetta töluverð hækkun. Ég held að það sé kannski það sem við þurfum að horfa fyrst og fremst til. Þetta nær til mun fleiri aðila en áður var, þannig að það er kannski það sem skiptir máli. Við þekkjum þessa 10% reglu, hún er til staðar í samkeppnislögum og kannski er þetta þaðan komið og hvergi annars staðar frá. Það er eitt af því sem nefnt er í frumvarpinu, þ.e. að þessi regla þekkist þar og því má áætla að veltutengingin sé þaðan komin. Það er einmitt talað um að nefndin hafi skoðað hvort aðrar Norðurlandaþjóðir hafi tekið upp sambærileg ákvæði í sinni löggjöf og sambærileg regla um veltutengingu hefur verið í sænsku löggjöfinni um fjármálafyrirtækja um allnokkurn tíma. Talað er um að veltutengingin eigi að tryggja hlutfallslegt samræmi milli lögaðila og stærðar þeirra til þess að valda ekki ójöfnuði, væntanlega á milli þeirra aðila sem svo óheppilega vill til að verða fyrir því að vera sektaðir. Það sem skiptir kannski máli þegar maður hugsar til þess hvort þetta sé matskennt eða ekki matskennt, að þá þarf að gæta jafnræðis.

Ég er auðvitað ánægð með það, eins og ég sagði áðan, að sjálfstæðismenn skuli leggja hér til auknar eftirlitsheimildir. Það er ekki endilega það sem þeir hafa staðið fyrir. Því er bara jákvætt að menn taki þetta upp.

Síðan er talað um að hækka refsirammann upp í sex ár fyrir þau brot sem talin eru geta haft hvað alvarlegustu og víðtækustu afleiðingarnar. Það er sami refsirammi og gildir um verðbréfaviðskipti og viðmiðið því væntanlega komið þaðan. Svo er talað um að vinna að frekari breytingum á löggjöf fjármálamarkaðarins innan fjármálaráðuneytisins til þess að styrkja innviði kerfisins. Ég held að við þurfum að vera síkvik og vakandi fyrir því. Ég tek undir að því miður virðist allt of margt vera á leiðinni í sama gamla farið, ég nefni frumvörp og mál í efnahags- og viðskiptanefnd, m.a. um bankabónusa og fleira. Við þurfum að vera vakandi yfir því að framsóknarmenn standi við það sem sagt var á flokksþingi þeirra og láti ekki sjálfstæðismenn komast upp með það að afgreiða slík mál úr nefndinni. Það gengur kannski þvert gegn því sem hér kemur fram, að reyna að styrkja rammann utan um fjármálamarkaðinn, og hluti af því er ekki að auka bankabónusa og passar ekki inn í umræðuna í samfélaginu í dag.

Virðulegi forseti. Varðandi þau varnaðarorð sem koma hérna fram um Fjármálaeftirlitið, að það hefði átt að beita heimildum sínum og hvort það gerist núna, hvort þetta sé það sem til þarf, þá vona ég að svo sé. Auðvitað gerðist það eftir hrun að fleiri mál komu til saksóknara þótt þau hafi ekki kannski öll endað með dómi eða einhverju slíku, en það gerðist vissulega. Það er kannski það sem skiptir máli. Þetta á að styrkja eftirlitið enn frekar.

Í lokin um það sem frumvarpinu er ætlað að gera og ég vona að því verði ekki breytt, þá er markmiðið að efla umgjörðina um starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit, að efla úrræðin og skapa traustan fjármálamarkað. Við þurfum að skapa trúverðugleika í þessu umhverfi og sýna að við séum að fylgjast með sem yfirvald þrátt fyrir að við séum í armslengd frá málum, við þurfum samt að sýna það sem þjóðþing að við séum meðvituð um að það séu kannski vísbendingar um að hlutirnir séu að þróast í ekki svo góða átt. Þess vegna þurfum við að mínu viti að vera enn þá frekar á vaktinni og ég held að þetta frumvarp sé liður í því.