144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður innir mig eftir því með hvaða hætti Svíar eru að breyta lögum sínum til að vernda uppljóstrara enn frekar. Ég get ekki svarað því öðruvísi en svo að Svíar, eins og nánast öll lönd í Evrópu, eru að breyta sínum lögum. Árið 2013 voru 16 lönd í Evrópu sem höfðu einhvers konar lög sem fólu í sér einhverja vernd fyrir uppljóstrara. Hins vegar gerðist það í kjölfar mikilla umræðna á þingi í Evrópuráðinu og síðan á Evrópuþinginu haustið 2013, að þá var samþykkt dálítið mögnuð ályktun þar sem því var beint til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að setja af stað vinnu við að ýta frá sér tilskipunum og reglum sem mundu skylda öll ríkin og líka EES-ríkin þar með, að taka upp í löggjöf sína nákvæmlega útfærða reglur um það hvernig ætti í fyrsta lagi að gera uppljóstrurum kleift að koma upplýsingum sínum á framfæri við einhvers konar regluverði eða eftirlitseiningar með nafnlausum hætti innan fjármálastofnana. Í öðru lagi tryggja að sá sem það gerði gæti gert það undir nafnleynd ef hann kýs svo. Í þriðja lagi að jafnvel þó hann kysi að gera það ekki undir nafnleynd yrði það algjörlega tryggt að hann mundi ekki sæta neinum kárínum fyrir, honum yrði ekki þröngvað úr starfi, það mundi ekki tálma framgang hans í starfi.

Vegna þeirrar samþykktar eru öll ríkin að taka þetta upp. Ástæðuna fyrir því að þessi starfshópur kemst að annarri niðurstöðu og vill bíða tel ég ákaflega augljósa. Það hefur verið ágreiningur í hópnum og menn hafa ekki náð niðurstöðu um það með hvaða hætti, hugsanlega kann að hafa leikið inn í það kaup eða umræða um skattupplýsingar sem fengnar (Forseti hringir.) voru hugsanlega ekki með lögmætum hætti.