144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir það að draga fram þær breytingar sem eru að verða á menntakerfinu með sameiningu skóla, því að ég held að það sé punktur sem skiptir máli fyrir þessa stóru heildarumræðu. Ég hef viðrað það að ég hef áhyggjur af því að þær breytingar sem verið er að leggja fram með þessu frumvarpi geti leitt til þess að teknar verði illa ígrundaðar geðþóttaákvarðanir og jafnvel að kjördæmapotspólitík fái greiðari aðgang.

Það ríkir ekki sérstaklega mikið traust í samfélaginu, hvorki til Alþingis né stjórnvalda. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að verði þetta frumvarp samþykkt svona, þar sem ráðherrar fá annars vegar að kveða upp um aðsetur stofnana, geti það haft miklu meiri áhrif á það hvernig skrifstofu- eða ráðuneytiseiningar eru samsettar, og síðast en ekki síst þá hafi þeir í rauninni sjálfdæmi um siðferðileg viðmið, hvort þingmaðurinn telji þetta líklegt skref til þess að auka traust þjóðarinnar á ríkinu og þar með samfélaginu.