144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða og upplýsandi ræðu. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann vegna þess að hún situr í nefndinni sem hefur haft þetta mál til skoðunar og þekkir því mun betur til umræðunnar sem þar hefur verið en ég. Mér finnst það gríðarlega áhugaverður og ekki síður mikilvægur punktur að velta því fyrir sér fyrir hvern stjórnsýslan er. Mér finnst það hreinlega vera grundvallaratriði í þessu og er hjartanlega sammála því að hún er ekki fyrir embættismennina heldur fyrir fólkið í landinu.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að 6. gr. þess frumvarps sem við ræðum sé ruglingsleg. Ég er alveg sammála því og ég get ekki séð þegar ég les hana hvert er verið að fara með þessari breytingu, þ.e. ég á erfitt með að sjá fyrir mér lokapródúktið sem kemur út úr þessari breytingu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að 17. gr., eins og hún stendur í núgildandi lögum, sé betri, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal skipuleggja ráðuneyti sitt með því að skipta því upp í skrifstofur og skal hverri skrifstofu stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Ég spyr hvort það sé kannski bara betra að vera ekkert að breyta þessu.