144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því. Þetta er gífurlega mikilvægt mál og ég held að það hafi verið rætt fyrr í þessari umræðu að eitt af átta eða níu bindum rannsóknarskýrslunnar stóru var einmitt um siðferðisleg málefni, ef ég má orða það svo. Þannig að vissulega skiptir það gífurlega miklu máli og það var verið að svara því þegar þetta var fært inn í stjórnarráðslögin árið 2011.

Mér finnst þingmaðurinn koma inn á atriði sem mér finnst skipta máli. Hún segir í lokin: Er ekki vont að færa þetta yfir til eins manns eða einnar manneskju sama hversu góð sú manneskja er? Það er einmitt það sem skiptir máli. Það er alveg sama þó að hér sæti á forsætisráðherrastóli manneskja sem væri með geislabaug, það skiptir ekki máli vegna þess að einhver kemur á eftir. Við getum ekki sett lög og sagt svo að við treystum ekki þessum forsætisráðherra fyrir því að hafa hlutina þannig. Það skiptir engu máli, virðulegi forseti.

Það sem skiptir máli, þegar við setjum lögin, er að við aftengjum þau fólki og að setja eigi það í hendur einnar manneskju að hafa yfirumsjón með siðareglum — án þess að það sé útfært nánar hvernig á að gera það, eins og einn gestur sem kom fyrir nefndina benti á — er líka óráðlegt. Það er margt óráðlegt í þessu frumvarpi, virðulegi forseti.