144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Það sem ég hef numið af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar þá hafa langflestir ræðumanna, ekki allir, talað með þeim hætti að þeir skilji réttlætið og sanngirnina sem í því felst að sá þriðjungur þjóðarinnar sem býr utan vébanda höfuðborgarinnar fái líka eitthvað af þeim störfum sem falla til í opinbera geiranum vegna þess að stjórnsýslan er partur, eða ég lít svo á, af innviðunum. Við viljum styrkja landið, styrkja landsbyggðina með því að styrkja innviðina. Þetta er ein leið til þess. Ég fæ ekki alveg séð að það þurfi að kosta einhver meiri fjárútlát, jafnvel minni, að reka störf innan opinbera geirans úti á landi. Ég hef reynslu af því. Ég hef rekið stofnanir sem hafa verið með töluverðan fjölda starfsmanna úti á landi, það hefur gefist ákaflega vel.

Það sem kom skýrt fram í ræðu minni er að ég tel að ekki eigi að fara þá leið að taka stofnanir, rífa þær upp með rótum, og flytja út á land. En ég tel að það geti líka þjónað því að auka og efla þjónustu við þjóðina að hafa útibú úti á landi, þar býr jú fólk sem þarf að sækja þjónustu til þessara sömu stofnana. Við höfum verið hér árum saman að ræða um nauðsyn þess að setja upp skilvirkari afgreiðslu ýmissa opinberra kerfa, eins og þeirra sem heyra undir Tryggingastofnun ríkisins, í gegnum sýslumenn eða aðrar stofnanir.

Ég sé því engar sérstakar andstæður á milli þess annars vegar, sanngirni hins vegar, milli þess eða góðrar meðferðar á fé.