144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru eiginlega veisluspjöll að gera smáleiðréttingu við svona þróttmikla ræðu en Júlíus Sesar kastaði teningunum ekki þegar hann fór yfir Tíber heldur þegar hann fór yfir Rúbíkon sem fellur í Miðjarðarhafið eða Adríahafið norðarlega á Ítalíu.

Ég gengst hins vegar algjörlega við því, forseti, að hafa haldið því fram og vera þeirrar skoðunar eins og ákaflega margir að það hafi verið átök innan ríkisstjórnarinnar sem leiddu til þess að ekki var ráðist fyrr í þennan gjörning sem er undanfari þess að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftum.

Ég vísa til þess að fyrsta ræða hæstv. fjármálaráðherra, sem flutt var út þessum stóli, þegar ríkisstjórnin tók við, var á þann veg að ekkert vandamál væri eins stórt og gjaldeyrishöftin. Þá þegar byrjaði hann að lýsa því yfir að á því ári yrði ráðist í fyrstu skrefin. Það liðu tvö ár og ástæðan var sú, eins og nú er komið fram, meðal annars í skýrslum, að það voru átök um gjaldþrotaleiðina sem voru ekki leidd til lykta fyrr en með dómi Hæstaréttar í haust. Þá fóru menn á handahlaupum í að undirbúa (Forseti hringir.) þetta og það var þess vegna sem það leið allur þessi tími eftir yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra. Þetta kostaði íslensku þjóðina.