144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Forseti. Að sjálfsögðu, eins og kom fram hér áðan í máli mínu, er aðalatriðið það að nýta þá fjármuni, það svigrúm sem skapast, til þess að lækka skuldir ríkissjóðs, til þess að efla íslenskt þjóðfélag til framtíðar. Tekjur fyrir ríkissjóð — ég lít ekki á þessa fjármuni, þetta svigrúm sem skapast sem einhverjar tekjur fyrir ríkissjóð til þess að mylgra út með hefðbundnum hætti, heldur fyrst og fremst til þess að nýta svigrúmið sem með þessu skapaðist til þess að efla þjóðlífið. Auðvitað er það alveg rétt — ég tók það nú fram í byrjun ræðu minnar, ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði það — að setning neyðarlaganna árið 2008 hefði verið mikið heillaskref og að þau hefðu haldið vel. Ég tók einmitt fram líka í byrjun ræðu minnar að lögin sem sett voru 12. mars 2012 hefðu sannað gildi sitt svo um munaði, (Forseti hringir.) enda, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, sat ég ekki á þingi og þurfti ekki að fara í sprænukeppni við nokkurn mann út af þessu máli.