144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að biðja forseta vinsamlegast að gera kortershlé á þessum fundi þannig að þingmenn gætu farið út og rætt við fulltrúa Bandalags háskólamanna og hjúkrunarfræðinga sem safnast hafa saman hérna fyrir utan. Það er mikilvægt að ég sé líka hérna inni vegna þess að ég þarf að fylgjast með ræðu og fara í andsvör við hv. þingmann sem talar næst, Frosta Sigurjónsson, hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar sem málið gengur til. Þetta er stærsta efnahagsmál Íslendinga á þessu kjörtímabili, ef ekki fyrr og síðar, þannig að ég spyr forseta vinsamlega hvort hann sé tilbúinn að gefa okkur frí í kannski tíu, fimmtán mínútur til að stökkva út og tala við fólkið.

Hvers vegna er mikilvægt að við förum út og tölum við hjúkrunarfræðinga? 90% landsmanna vilja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í forgang, óháð flokkum, óháð búsetu, óháð því hvað fólk kýs, óháð efnahag, óháð aldri, óháð menntun. Þessi ríkisstjórn lagði fram hallalaus fjárlög núna síðast upp á 3,5 milljarða meðan 3 milljarða vantar samkvæmt öllum forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins á þessu landi til að tryggja nauðsynlega þjónustu. Núna eru hjúkrunarfræðingar í verkfalli og verið er að tala um að setja lög á þá. Þá fara þeir. Við verðum að fá tækifæri til að tala við þá. Ég spyr herra forseta: Geturðu gefið okkur góðfúslega leyfi í tíu mínútur til þess?