144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig hefur undrað í nokkuð margar vikur hversu mikið tómlæti hefur verið gagnvart verkfalli bæði geislafræðinga og lífeindafræðinga og raunar fleiri sem nú eru komnir á 10. eða 11. viku í verkfalli. Þeim var sagt að bíða eftir aðilum almenna vinnumarkaðarins. Við erum að tala hér um stéttir sem eru mjög mikilvægar í samfélaginu sem hafa líka verið að berjast fyrir stöðu svokallaðra kvennastétta, hafa verið að berjast fyrir því réttlæti að einhvern veginn verði jafnað hlutfallið á meðal þeirra sem kallast oft ráðuneytisbundin laun, þ.e. þeir sem vinna í stofnunum sem heyra undir atvinnumál, iðnaðarmál, undir viðskiptaráðuneytið og fleiri, eru á allt öðrum launum en þeir sem vinna við velferðarmál. Þetta er mikið réttlætismál. Þeir sem vinna við velferðarmál reyna að sækja þennan rétt og tengja hann við menntun, sambærilega menntun en þeir eru fullkomlega hunsaðir og það finnst mér vera nokkuð sem þarf að ræða í þinginu. Ég tek undir þá áskorun sem hér hefur komið um að við setjum í gang venjulega dagskrá þingsins þannig að við getum farið í sérstakar umræður og eftirfylgni hvað þetta mál varðar.