144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Stjórnvöld verða að bera ábyrgð á því hvernig komið er í þessari deilu. Í upphafi var það þannig að sérgreinalæknar fengu yfir 20% hækkun á launum sínum, þ.e. þeir sem voru að vinna utan opinbera kerfisins. Þeir fengu verðtryggð laun og þeir fengu magnaukningar til að geta sótt sér meiri tekjur. Síðan kemur læknadeilan og læknaverkfallið í framhaldinu og þá ætla menn að fara að bjóða opinbera geiranum 3,5%. Menn vita hvernig það endaði.

Nú er verið að reyna að þvinga hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og fleiri stéttir til að falla inn í einhver 3,5% vitandi það að á almenna markaðnum er möguleiki á að semja um viðbótarlaun, það eru t.d. markaðslaun hjá VR o.s.frv. Þetta er umhverfi sem er ekki hægt að bjóða fólki. Það verður líka að skoða þetta út frá því hvort menn eru þá að ýta þessu út úr opinbera kerfinu til að geta borgað þessi laun af sama ríkinu á einkastofnunum þar í kring. (Forseti hringir.) Þetta vantar okkur tíma til að ræða og ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að það verði hægt.