144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi skattalækkanir sínar í tengslum við þessar aðgerðir en til að öllu sé til haga haldið með þeim hætti að svigrúmið sem skapaðist vegna lægri vaxtagjalda yrði að einhverju leyti nýtt til þess, ekki summunni allri eða að ekki yrði tekið af þeim stabba.

Mig langar þá að spyrja hv. þingmann. Er hann þeirrar skoðunar að það eigi að breyta þessum rammasamningi við hóp kröfuhafa, sem kemur fram í því sem kallað er erindi á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, þannig að slitabúin megi ekki selja erlendum aðilum bankana? Í öðru lagi, er það þá rétt skilið hjá mér þegar menn hafa verið að tala um að lækka megi árleg vaxtagjöld ríkisins um kannski allt að 35 milljarða, að það sé í reynd tóm vitleysa og að ekki verði hægt að skapa mikið svigrúm með lægri greiðslu vaxtagjalda fyrir ríkið, nema hugsanlega sem nemur þessum 150 milljörðum sem eru að nafninu til (Forseti hringir.) vaxtaberandi, en hv. þingmaður hefur skýrt að það sé nú bara að flytja úr einum vasa í annan?