144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Markmið þessara frumvarpa er að tryggja efnahagslegan stöðugleika og almannahag. Þetta er réttlætingin fyrir því að jafnvel 650 milljarðar fari í að borga upp skuldabréf við Seðlabankann og borga upp skuldir sem Íslendingar urðu fyrir, sem ríkissjóður varð fyrir vegna hrunsins. Verið er að skapa stöðugleika með þessu en stöðugleikinn sem skapast í formi þess að þessir peningar eru teknir skal ekki nýttur í eyðslu heldur til að leiðrétta stöðuna.

Eftir að búið er að greiða upp skuldabréfið við ríkissjóð og nokkra aðra þætti, m.a. kosningaloforð Framsóknarflokksins og 11 aðra milljarða enda 5 milljarðar inni í Seðlabankanum á ólæstum reikningi sem hægt er að ráðstafa. Sama hvað sagt er með fögrum orðum hér í frumvarpinu er samt sem áður sagt að hægt sé að ráðstafa því í fjárlögum. Þetta er þannig séð kökubox með 500 milljörðum inni í Seðlabankanum sem stjórnmálamenn geta ráðstafað í fjárlögum. Freistingin er gríðarleg, þetta er ígildi peningaprentunar, sem er einmitt ástæðan fyrir því að við höfum Seðlabanka en ekki bara peningaprentunarvaldið hjá fjárlaganefnd eða fjármálaráðherra. Við aðgreinum þetta, en þarna verður ígildi þessarar aðgreiningar ekki lengur til staðar. Ef stjórnmálamenn freistast til að seilast ofan í þetta kökubox og fara að maula þá gerist tvennt; efnahagslegur óstöðugleiki getur fylgt í kjölfarið ef þeir verða of gráðugir, sem þýðir að verðbólgan fer á fullt, sem þýðir að ekki er svigrúm fyrir kjarabætur fyrir landsmenn sem missa náttúrlega kaupmátt vegna verðbólgunnar. Og hins vegar skjótast verðtryggð húsnæðislán upp, það fer allt í mjög slæmt form, en jafnframt verður réttlætingin fyrir því að taka þennan skatt, þ.e. efnahagslegur stöðugleiki, þá farin út í veður og vind. Kröfuhafarnir geta sagt: Heyrðu, þetta var eignaupptaka eftir allt saman. Þið eruð bara að seilast í þetta og maula það. Þetta var sem sagt ekki bara til þess að tryggja að þið gætuð haft það sæmilegt, að þið munduð ekki svelta, ef við tökum myndlíkinguna alla leið. Nei, þið eruð bara gráðug. Þetta var eignaupptaka eftir allt saman.

Það mun setja lagalega stöðu Íslands og allt það í uppnám, alla vegferð þarsíðustu ríkisstjórnar, þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili, allt það verður sett í uppnám. Við erum í lagabardaga inn í framtíðina.

En munu stjórnmálamenn nokkuð freista þess þegar þeir horfa fram á þetta að seilast ofan í kökuboxið og hugsa: Tökum bara nokkra tugi milljarða, eða eitthvað? Munu þeir nokkuð freistast til þess? Það er ástæða fyrir því að valdið til að búa til peninga er aðgreint, að það er haft hjá Seðlabankanum af því að ef stjórnmálamenn hafa það freistast þeir alltaf til að gera nákvæmlega það. Það eru tvö ár í kosningar, ríkisstjórnin er óvinsæl og ef við girðum ekki fyrir það, ef við setjum ekki þetta kökubox einhvers staðar upp á skáp eða inn í læstan skáp, sem er enn þá betra, hef ég verulegar áhyggjur af því að stjórnmálamenn muni í aðdraganda kosninga fara í loforðaflaum og svo jafnvel fara að eyða þessum peningum eftir kosningarnar, og jafnvel fyrir kosningarnar, til að skapa sér stöðu.

Það er veruleg hætta á því þannig að það er mikilvægt að við lokum fyrir þennan möguleika. Það eru fordæmi í öðrum ríkjum þar sem mikil verðmæti voru fyrir hendi, þar sem ríkissjóður hefur skyndilega haft aðgang að miklum verðmætum. Í olíuríkjum eins og til dæmis í Noregi og Sádi-Arabíu, víða um heim, hafa menn læst slíka peninga inni í sjóðum þar sem aðeins er hægt að nota þá á þeim forsendum að það tryggi efnahagslegan stöðugleika. Þá var ekki um lagalega óvissu að ræða þar, þeir vildu bara tryggja efnahagsstöðugleikaþáttinn. Við erum með þetta hvort tveggja.

Við munum þrýsta á að það verði tryggt. Ég hef heyrt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti aðstoðað okkur við þetta og hef vilyrði fyrir því frá ráðgjöfum. Við getum að sjálfsögðu fengið ráðgjafa frá Noregi og skoðað hvernig Norðmenn gera þetta, en ef við skiljum kökuboxið eftir ólokað á hlaupareikningi Seðlabankans er veruleg hætta á því að það stefni í mikið óefni.