144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

ávarp forseta Alþingis.

[11:01]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti Íslands. Alþingismenn. Hátíðargestir í Alþingishúsinu. Góðir landsmenn. Ég býð ykkur öll velkomin til þessa hátíðarfundar Alþingis um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með daginn.

19. júní 1915 er merkisdagur í okkar sögu. Í dag minnumst við þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskrar konur fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Jafnframt er þess að minnast að þennan dag fengu hjú, kaupstaðarborgarar, þurrabúðarmenn og lausamenn sömu réttindi. Afmælisins hefur verið minnst með margvíslegum hætti víða um land. Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hversu virk einstaklingar, félagasamtök, skólar, stofnanir og sveitarfélög hafa verið í að minnast þessa dags. Og enn er afmælisárinu ekki lokið. Ég vil fyrir hönd Alþingis færa öllum sem lagt hafa hönd á plóginn þakkir fyrir þeirra mikla framlag.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem skipuðu framkvæmdanefnd afmælisársins undir forustu Auðar Styrkársdóttur fyrir þeirra góða starf, en nefndin var kjörin samkvæmt ályktun Alþingis 11. mars 2013 af fulltrúum íslenskra kvenna. Ég vil einnig sérstaklega þakka Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra afmælisnefndarinnar og forvera mínum hér á forsetastóli, fyrir hennar mjög svo ötula starf við alla skipulagningu afmælisársins. Það hefur sýnt sig að í verkefnum hennar hefur nýst vel löng reynsla hennar í opinberu starfi.

Í lýðræðisríki er almennur kosningarréttur og kjörgengi sem nær til allra þjóðfélagsþegna grundvallaratriði. Í þeim skilningi var lýðræði á Íslandi verulegum takmörkunum háð fram til ársins 1915. Kosningarréttur sem konur hlutu 1915 var takmarkaðri réttur en karla og miðaðist í fyrstu við 40 ára aldur, en ekki við 25 ára aldur eins og hjá körlunum. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar með nýrri stjórnarskrá 1920 að sömu reglur giltu um kjörgengi og kosningarrétt karla og kvenna. Stjórnarskráin 1920, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, var því í senn mikilvægur þáttur í stjórnskipunarsögu okkar og stórt skref til að tryggja jafnrétti kynjanna.

Baráttan fyrir kjörgengi og kosningarrétti íslenskra kvenna stóð í ein 30 ár og á þeim tíma mættu kröfur kvenna ekki alltaf miklum skilningi. Þetta sjáum við meðal annars í orðum þeirra sem andmæltu því á Alþingi að veita konum slík réttindi. Ég leyfi mér að vitna til svohljóðandi ummæla sem eitt sinn féllu:

„Eg álít, að karlmenn séu miklu færari um að gæta opinberra starfa en kvenfólk. Konur eiga að vera mæður barna sinna og gæta húsmóðurstarfa á heimilinu.“

En þetta voru til allrar hamingju minnihlutasjónarmið og íslenskir karlmenn voru nægilega framsýnir til að skipa Íslandi á bekk með þeim löndum þar sem konur fengu einna fyrst kosningarrétt til þjóðþings. Aðeins fjögur lönd höfðu áður stigið slíkt skref.

Þrátt fyrir rétt kvenna til að bjóða sig fram til þings tók það langan tíma þar til nægur skilningur var á því í stjórnmálaflokkunum að veita konum brautargengi í stjórnmálum. Frá því að fyrsta konan tók sæti á Alþingi árið 1922 og fram til 1983 höfðu aðeins 12 konur tekið sæti á Alþingi sem aðalmenn. Á sama tíma höfðu hins vegar 278 karlmenn setið á Alþingi sem aðalmenn. Í reynd má segja að ísinn hafi ekki verið brotinn fyrr en með framboði Kvennalistans árið 1983. Í dag er Alþingi í 10. sæti yfir þau þjóðþing sem hafa að skipa flestum konum á þingi og eru konur á Alþingi nú um 40% þingheims. Fyrir 20 árum, árið 1995, vorum við aðeins ofar á heimslistanum, í 8. sæti, og það þrátt fyrir að mun færri konur væru þá á Alþingi, þ.e. rúmlega 25% þingheims. Þetta dregur fram þá ánægjulegu staðreynd að jákvæð þróun á sér stað í þessum efnum víða um heim.

Kosningarrétturinn sem konur hlutu 1915 og 1920 var vitaskuld aðeins einn þáttur í því að tryggja jafna lagalega stöðu kynjanna. Í þeim efnum hefur margvíslegur árangur áunnist á umliðnum árum, enda er nú svo komið að við verðum þess áskynja að mjög er horft til Íslands sem fyrirmyndar í mörgum efnum þegar kemur að jafnréttismálum. Enn er þó verk að vinna. Ég vil í því sambandi nefna þann kynbundna launamun sem enn viðgengst í samfélaginu og er því fagnaðarefni að í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir til síðari umr., um Jafnréttissjóð Íslands, og sem er framlag Alþingis til kosningarréttarafmælisins, er meðal annars kveðið á um að veita skuli fjármagn til þess að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

[Kvennakórinn Vox feminae söng lagið Konur.]