144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti Íslands. Herra forseti. Við fögnum í dag merkum áfanga í lýðræðis- og jafnréttisþróun á Íslandi. Aðdragandinn að þessum áfanga, kosningarrétti kvenna og karla, var langur og strangur. John Stuart Mill skrifaði fræga bók sína um kúgun kvenna árið 1869 en hún kom út á íslensku aldamótaárið 1900. Þar rökstuddi Mill að kúgun kvenna hamlaði framför mannkynsins og að koma yrði á fullkomnum jöfnuði milli kynjanna þannig að hvorugt hefði nokkur forréttindi eða völd og hvorugt yrði útilokað með lögum frá nokkru því sem hitti hefði. Gallinn væri hins vegar að kúgun kvenna ætti rót í sterkum og rótgrónum tilfinningum og að þeir sem létu stjórnast af þeim tækju engum rökum, að þess vegna mundi þessi barátta taka tíma. Það hefur ræst.

Réttindabarátta íslenskra kvenna fékk byr undir báða vængi í gegnum kvennahreyfingar nágrannalandanna og gagnrýnin skrif í anda Johns Stuarts Mills. Hún hefst af fullum þunga eftir fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur 30. desember 1887 sem bar yfirskriftina „Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna“. Þar sagði Bríet um samfélagsþátttöku kvenna:

Það er hinn „þröngsýni og heimskulegi dómur fjöldans sem veldur svo oft að burðarleysi og þolinmæði kvenna er hvorki skortur á skynsemi eða vilja til að komast áfram. Það lítur svo út sem það sé eitthvað svo óhæfilegt fyrir konur að skapa sér sjálfstæðar skoðanir og framfylgja þeim að þær geti ekki unnið það fyrir, ef það skyldi þá verða álitið „ókvenlegt“. […] Áður þótti það góður siður og sjálfsagður að konur riðu til þings með feðrum og mönnum sínum. Og hvergi er þess getið að til orðs væri lagt þótt konur og karlar töluðu saman opinberlega og frjálslega. En nú er það dæmt óhæfilegt eða ókvenlegt að konur sæki fundi …“

Herra forseti. Þegar sækja þarf réttindi sem dregur óhjákvæmilega úr forréttindum annarra gerist það sjaldan baráttulaust og oft er dómur fjöldans þröngsýnn en þessi kvenréttindabylgja hafði einnig jákvæð áhrif á réttindi annarra sem ekki höfðu heldur kosningarrétt árið 1915. Samtakamáttur stéttabaráttunnar hafði ekki enn numið land en drifkraftur og samtakamáttur eins hóps getur opnað dyr fyrir aðra hópa. Skömmu eftir kosningarréttarárið voru vinstri flokkarnir stofnaðir á Íslandi og þeir karlar sem höfðu búið við undirokun auðvaldsins fengu málpípur fyrir sinn málstað. Baráttumenn verkalýðsins höfðu fengið kjósendur.

Kosningarrétturinn var hins vegar ekki það eina sem breytti stöðu kvenna. Samtakamáttur kvenna hefur haft gríðarleg áhrif í okkar samfélagi og margir áfangar náðst. Menntun kvenna er einn þeirra. Frelsi kvenna til að ráða yfir líkama sínum er annar áfangi sem við erum enn að berjast fyrir. Þó að margir áratugir séu liðnir síðan Katrín Thoroddsen, læknir og alþingismaður, flutti útvarpserindi undir yfirskriftinni „Frjálsar ástir“ árið 1931 þar sem hún kynnti landsmönnum getnaðarvarnir stendur baráttan fyrir rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama enn þá eins og sjá má á brjóstabyltingunni og þeirri umræðu sem hefur skapast um kynbundið ofbeldi meðal kvenna sem nú koma fram og rekja sögu sína.

Slík barátta er aldrei sársaukalaus. Hún getur aldrei orðið samkvæmt dagskrá ráðamanna á hverjum tíma. Við á Alþingi Íslendinga þurfum að gera okkur grein fyrir því að okkar hlutverk er fyrst og fremst að tryggja rétt hvers og eins til að taka þátt og móta samfélag okkar, hvort sem það eru konur eða karlar, fatlað fólk eða ófatlað, börn eða gamalmenni. Þeir almannahagsmunir sem okkur er trúað fyrir snúast um að skapa þekkingu, umhverfi og aðstæður fyrir umbyltingar í átt að auknu félagslegu réttlæti. Við stígum ekki skref í rétta átt með því að sætta okkur við stöðu mála, heldur snýst baráttan um betra samfélag og samræðuna sem skilar okkur áfram veginn þó að stundum finnist fólki sú samræða óþægileg og erfið.

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þá tillögu sem hér liggur frammi um að efla jafnréttissjóð næstu fimm árin og vonum að það megi verða til þess að styðja við það eilífa frelsisstríð sem snýst um jafnan rétt okkar allra.

Kæru landsmenn, til hamingju með daginn.