144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég get glatt forseta með því að ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt verulega. Mig, eins og aðra, þyrstir í að hlýða á ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, sem mér virðist á þessari umræðu að sé eiginlega þröskuldur fyrir því að menn geti náð hér endanlegu samkomulagi, en hv. þingmaður skýrir það þá betur í máli sínu hér á eftir.

Mér finnst þetta mál snúast um samningatækni. Við erum búin að ganga frá samkomulagi um þinglok. Eitt af þeim málum sem um er samið er þetta deiluefni sem sprettur allt í einu fram upp úr þurru. Gengið er frá því með samkomulagi formanna allra þingflokka að deiluefnið verði lagt til hliðar með því að hér kemur fram frestunarfrumvarp og það er ákveðin dagsetning í því. Það er það sem fulltrúar allra flokka ganga að. Svo gerist það allt í einu að samkomulagið um þetta tiltekna atriði er í uppnámi. Það þýðir þá að heildarsamkomulagið sem menn hafa gert og eru að bisa við að ná fram um endalok þessa þings, er líka í uppnámi. Mér finnst að það þurfi að liggja algerlega skýrt fyrir hver á að verða niðurstaðan.

Ég tek fullkomlega undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að nauðsynlegt er að ganga frá því sem allra fyrst að nýju lögin um náttúruvernd taki gildi. Ég á ekki sæti í umhverfis- og samgöngunefnd en ég er áhugamaður um það mál. Ég er einn þriggja núverandi og fyrrverandi umhverfisráðherra sem taka þátt í þessari umræðu. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að þau náttúruverndarlög sem samþykkt voru að frumkvæði hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur brutu að ýmsu leyti í blað. Eins og hv. þingmaður rakti hér í tveimur mjög mikilvægum efnum styrkja þau mjög stöðu náttúrunnar. Í fyrsta lagi er það svo að varúðarreglan er miklu skýrari og skarpari í þeim lögum og í öðru lagi skiptir miklu máli að fá hina sérstöku vernd. Þar fyrir utan voru ein þrjú, kannski fjögur atriði sem nokkrar deilur stóðu um, reyndar fleiri þegar við ræddum þetta mál í upphafi kjörtímabilsins. En ég hef fylgst ötullega með þessu máli og skynja að verið hefur vilji á báða bóga til að leysa þau mál. Menn hafa gefið eftir af hálfu stjórnarandstöðunnar, líka af hálfu stjórnarliðsins. Mér finnst skipta máli að haldið verði áfram á þeirri sáttarbraut sem var hafið svo farsællega undir forustu formanns nefndarinnar, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar.

Hér í morgun flutti varaþingmaðurinn hv. þm. Andrés Ingi Jónsson mjög skörulega jómfrúrræðu og ég hugsa að hæstv. ráðherra hafi vaknað hressilega við það steypibað. Mér sýndist hæstv. ráðherra fyrtast við ákveðnum ummælum hv. þingmanns sem gat þess að ef áhuginn á náttúruverndarmálunum sem birtist í fjárlögum og áætlunum um ríkisútgjöld á næstu árum leiddi til þess að dómi hæstv. ráðherra að þetta mál væri í forgangi, þá spyrði hann eðlilega: Hvað þá með hin málin? Staðreyndin er sú, eins og hæstv. ráðherra veit, að eitt af því sem hangir á því að við klárum það mál sem hér er til umræðu er samþykkt fjárveitinga til friðlýsinga. Hæstv. ráðherra hefur nokkrum sinnum hér í vetur verið tekin upp á því máli og það verður bara að segjast að það er mála sannast að nánast engir fjármunir hafa verið veittir til friðlýsinga og það eru engir fjármunir í augsýn. Hæstv. ráðherra nefndi það sér til afbötunar í ræðum sínum í morgun, alveg eins og fyrr, að menn væru að bíða eftir því að deilan um þessi lög væri leyst og þau tækju gildi. Ég held að það liggi algerlega ljóst fyrir að það hvíla skyldur á ráðuneytinu um að undirbúa og framkvæma friðlýsingar hvort sem þessi lög eru í gildi eða ekki, en þessi lög munu hjálpa því. Ég get ekki annað en sagt að miðað við eins og málin standa núna liggur á að við flýtum þessu máli. Þess vegna er ég algerlega sammála því að við ljúkum því með þeim hætti sem skrifað var undir í gær þannig að bætt ný lög, þegar umsamin deiluatriði eru lögð til hvílu, taki gildi eigi síðar en 15. nóvember, því fyrr því betra. Og það sætir furðu ef einhverjir gikkir eru í þessari veiðistöð sem ætla að koma í veg fyrir það samkomulag. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hinn mikli sáttarhöfðingi, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, geri nokkuð annað en sem jafnan fyrr, að leggja sitt lóð á vogarskálar sáttar í þessu máli.

Ég vona að ég hafi engan mann æst upp og ætla með þessum orðum að ljúka ræðu minni. En ég hvet hv. þm. Höskuld Þórhallsson að vera sér meðvitaður um að hann hefur gengið fram með klæði sáttar og borið á vopn í þessum málum og hann á að láta ræðu sína snúast um það. Þá verða allir glaðir í þessum sal. Ég vek eftirtekt á því að ég fæ ekki betur séð varðandi tímasetningarnar en að hér hafi komið strolla af hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Framsóknarflokksins sem eru meira sammála stjórnarandstöðunni í þessu máli en hv. þingmanni. Það skiptir náttúrlega töluverðu máli. Hæstv. ráðherra sagði það í ræðu sinni og lauk lofsorði á þá staðreynd að svo virtist sem hún kynni betur við sig í þessu máli í náðarfaðmi stjórnarandstöðunnar. Hæstv. ráðherra á að þekkja hann. Við höfum mörg starfað með henni áður og hún veit að okkar kærleiksfaðmur er blíður og hlýr. En, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sá náðarfaðmur stendur öllum opinn.