144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:12]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið var samþykkt í gær í öllum sjö sveitarfélögunum. Það er mikið fagnaðarefni að samliggjandi sveitarfélög geri með sér sameiginlega framtíðarsýn á þróun svæðisins. Áhugaverðar hugmyndir eru í skipulaginu, eins og borgarlínur. Á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu stendur, með leyfi forseta:

„Borgarlínan verður nýtt léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið. Þannig myndast samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin. Borgarlínan verður því raunhæfur valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum.“

Það er sérstaklega tvennt sem ég hef áhuga á í þessu samhengi, greiðara samgöngukerfi og breyttar ferðavenjur með orkuskiptum í samgöngum, þ.e. í almenningssamgöngum og heilsueflandi ferðamáta. Helsti gallinn við slíka framkvæmd er verðmiðinn og það er líklega ástæða þess að ekki hefur verið ráðist í hana fyrr, en hugmyndin hefur verið uppi í sirka þrjá áratugi. Ef við setjum verðmiðann í samhengi er hann um það bil tvær til fjórar samgönguáætlanir eins og hún er í dag.

Hæstv. forseti. Ég ætla að viðra hér aðra framtíðarsýn sem gæti gengið ein og sér en einnig með hraðvagnakerfi. Hugmyndin kemur úr áfanga í samgönguverkfræði í háskólanum og byggir á þrem tækninýjungum; rafmagnsbílum, sjálfkeyrandi bílum og leigubílakerfinu Uber. Með þessu kerfi þyrfti enginn sem býr á höfuðborgarsvæðinu að eiga bíl. Bílar eru pantaðir líkt og leigubílar í gegnum snjallforrit svipað og leigubílafyrirtækið Uber notar en markmiðið næst ekki nema að það séu nægilega margir bílar í kerfinu. Í snjallbílakerfinu eru upphafsstaðir, áfangastaðir og vegalengdir þekktar þannig að auðvelt er að besta kerfið og umferðarteppur ættu að heyra sögunni til.

Þetta hljómar fjarstæðukennt en tæknin er til staðar og svona kerfi gæti orðið raunverulegt eftir 5–10 ár.