144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[12:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að lýsa yfir ánægju með að þetta frumvarp verði að lögum síðar í dag.

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðissamfélags og það er gríðarlega mikilvægt að við færum lögin okkar fram til nútímans. Þetta ákvæði laga er sannarlega barn síns tíma og má segja að þessi breyting á lögum sé viðbragð íslensks samfélags við árásunum á ritstjórnina hjá Charlie Hebdo. Það gleður mig mjög að við höfum ákveðið sem þjóð að styrkja tjáningarfrelsið í stað þess sem gerst hefur sums staðar, að gerðar hafa verið tilraunir til þess að skerða tjáningarfrelsið í kjölfar þessara voðalegu atburða.

Það má segja að þegar þessi lög verða lögfest séum við öll á Íslandi Charlie Hebdo.