145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Áður en ég ávarpa landsmenn vil ég byrja á að þakka fráfarandi þingmanni Jóni Þór Ólafssyni fyrir eftirminnilegt samstarf undanfarin tvö ár hér á Alþingi.

Kæru landsmenn. Mig langar í ljósi þess að við þingmenn getum ekki hreyft neinum andmælum þegar forseti lýðveldisins messar yfir okkur við upphaf sérhvers þings, eins og hann gerði í dag, að nota tækifærið og andmæla staðhæfingum forsetans. Forsetinn sniðgekk nokkur afar mikilvæg atriði í málflutningi sínum um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum. Í fyrsta lagi eru þetta óþarfaáhyggjur hjá forseta vorum, Ólafi Ragnari Grímssyni, um að kosningar um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum verði ólýðræðislegar. Það er einmitt eina mögulega leiðin til að tryggja nægilega þátttöku almennings til að vega upp á móti ólýðræðislegum 40% þátttökutálmunum sem voru settar í bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárinnar. Staðreyndin er sú að ef breytingarnar verða umdeildar þurfa yfir 80% allra á kjörskrá að mæta til að greiða atkvæði til að niðurstaða kjósenda öðlist gildi. Langbesta og tryggasta leiðin til að fá fólk á kjörstað er fulltrúakosningar, samanber forsetakosningar eða alþingiskosningar. Vert er vekja athygli á því að engar sambærilegar lýðræðistálmanir eru á þátttöku til alþingiskosninga eða forsetakosninga.

Forsetinn sagði jafnframt í ræðu sinni fyrr í dag að þröng tímamörk og sparnaðarhvöt mætti ekki stofna gæðum verksins í hættu. Kæri forseti lýðveldisins, það er mér sönn ánægja að upplýsa þig um að þetta eru ekki hvatarnir sem liggja að baki því að spyrða saman þessar tvennar kosningar, hvatarnir eru einmitt fyrst og fremst hugsaðir til að tryggja góða þátttöku.

Forsetinn sagði einnig í dag að vanda þurfi vel til verks. Ég get fullvissað okkar ágæta forseta um að vandað hefur verið til verksins með ótal sérfræðingum og fundum og finnst mér furðu sæta að forsetinn láti í veðri vaka að svo sé ekki enda komu engar nánari útlistanir á því hvað gæfi tilefni til þessa vantrausts áður en niðurstaða liggur fyrir.

Það er ljóst að forseti lýðveldisins hefur fært sig inn á háskalegar og gerræðislegar brautir gagnvart þingræðinu í dag og undir því get ég ekki setið án þess að andmæla af fullum krafti. Ljóst er að einhver þarf að bjóða sig fram til að sinna hlutverki forseta sem er annt um hið beina lýðræði og er tilbúinn að sleppa tökunum af málskotsréttinum til þjóðarinnar sjálfrar.

En svo ég snúi mér að aðalumræðuefni kvöldsins, stefnuræðu forsætisráðherra, þá spratt upp í huga mér falleg, óskhyggjuleg barnagæla þegar ég las ræðuna í morgun, lag sem ég söng oft sem barn, og ég sá hæstv. forsætisráðherra ljóslifandi fyrir mér með pensil og teikniblað í myndlíkingu ljóðsins Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma. Ræðan endurspeglar teiknimynd forsætisráðherra þar sem lita á yfir aðkallandi vandamál með fallegum orðum og litum. Fjárlög gefa ekki fyrirheit um að það takist að leysa fjölþætt undirstöðuvandamál heilbrigðiskerfisins, húsnæðiskerfisins eða þau óveðursský í alþjóðafjármálakerfunum, né heldur er slíkt að finna í þingmálaskránni. Þar er fullt af fallegum fyrirheitum sem ekki sér stað í fjárlögunum. Ég tók mér því bessaleyfi og stílfærði aðeins barnagæluna, með leyfi forseta:

Ég skal mála allan heiminn, elsku Íslendingur,

eintómt sólskin, bjart og jafnt.

Þó að dimmi að með daga kalda og skamma,

dagar þínir verða ljósir allir samt.

Litlu blómin sem þig langar til að kaupa

skal ég lita hér á teikniblaðið mitt.

Ég skal mála allan heiminn, elsku Íslendingur,

svo alltaf skíni sól í húsið þitt.

Íslendingur, ertu sorgmæddur? Seg mér hvað er að,

sjálfsagt get ég málað gleði yfir það

ótal fagra liti á ég fyrir þig

ekki gráta, Íslendingur — brostu fyrir mig.

Óskaðu þér, Íslendingur, alls sem þú vilt fá,

enn þá á ég liti, til hvers sem verða má.

Allar heimsins stjörnur og ævintýrafjöll

óskaðu þér, Íslendingur, svo lita megi ég þau öll.

Ég vil þó ekki vera með öllu neikvæð, kæra þjóð, og vildi sjálf óska að hægt væri með einföldum hætti að verða við sérhverri ósk allra og væri alveg til í að halda loforða- og lofgjörðaræðu. Efndir hljóta að vera vegvísir um raunverulegan vilja til að breyta rétt.

Elsku þjóðin mín. Hér stend ég og er að mati valdhafa sem óskrifað blað. Mér finnst gott að það sé þannig frekar en að vera þéttskrifað blað beggja megin eins og hefðbundin stjórnmálamenning er í hugum margra. Það er nefnilega þannig að það að vera óskrifað blað gefur möguleika á því að þú, já, þú getir skrifað á blaðið með okkur. Það er ekki búið að ákveða fyrir fram alla stefnuna eða marka leiðina án aðkomu ykkar. Við viljum í alvörunni að þú ráðir. Því er vert að halda því til haga að okkar píratíska, pólitíska miðja er rótföst í grunnstefnu okkar og okkar siðferðiskompás er að finna í píratakóðanum.

Það er gott að hafa skýran og, já, hæstvirtur fjármálaráðherra, rótfastan grunn í hugmyndafræðinni en um margt skilgreinum við okkur hvorki til hægri né vinstri eins og þekkt er. Við skilgreinum okkur fyrst og fremst sem fólk sem vill mannúðlegra samfélag með því að tryggja borgaraleg réttindi okkar í lögum sem og í framkvæmd. Okkar óskrifaða blað býður upp á það að geta nýtt sér visku fjöldans og með því að viðurkenna í auðmýkt að það er ekki neinn einn eða neitt eitt afl sem hefur öll svörin heldur eru það hin fjölmörgu sjónarhorn byggð á raunverulegri reynslu af því að búa í kerfinu sem gerir okkur kleift að útbúa stjórntæki og umgjörð um samfélagið sem er hvorki rótföst né rammföst, nei, miklu frekar sveigjanleg út frá ólíkum kringumstæðum sérhvers borgara landsins. Þá eru mun minni líkur á því að fólk falli á milli í eitthvert kerfislegt helvíti.

Margt hefur breyst í samfélagi okkar eftir að heimurinn fékk gefins hið stórkostlega verkfæri internetið. Það verkfæri hefur gefið okkur tækifæri til að tengjast öðrum á milli heimsálfa og sveitarfélaga, það hefur gefið okkur tækifæri á að öðlast þekkingu sem áður var ekki auðvelt að hafa aðgengi að. Það sem þetta verkfæri hefur þó gefið okkur meira en nokkuð annað er að tækifæri til valdeflingar eru miklu fleiri en áður tíðkaðist og fólk getur á auðveldan hátt búið til samfélög í netheimum sem leiða af sér samfélög í raunheimum, eins og ótal dæmi sanna.

Nú erum við píratar í þeirri sérkennilegu stöðu að við eigum raunveruleg tækifæri á að breyta þessu samfélagi í grunninn. Ekkert okkar óraði fyrir þeim mikla meðbyr sem við höfum haft. En hvernig ætlum við að nota þennan meðbyr? Við píratar ætlum að halda áfram að feta þá braut að fjalla um róttækar breytingar og leggja til lausnir í anda 21. aldarinnar og „sörfa“ í brimróti róttækra breytinga og sneiða hjá hinum lygnu fjörðum hefðbundinna stjórnmála.

Ég er auðvitað fyrst og fremst aðgerðasinni, manneskja sem trúi á mátt og skyldu einstaklinga til að breyta samfélögum sínum ef maður upplifir að í samfélaginu ríki til dæmis óréttlæti. En það er mikil freisting sem felst í því að falla ekki inn í alla sömu umgjörðina og aðrir gamalgrónir flokkar. Það eru ekki þannig stjórnmál sem okkur langar að taka þátt í. Við getum auðveldlega lofað alls konar mjög þörfum breytingum með bútasaumsaðferðum núverandi stjórnarfars þar sem tekið er á bráðavanda en ekki hugað að orsök hins kerfislæga vanda og mismununar.

Það er auðvelt að búa til stefnur, stefnur sem geta litið vel út á blaði og í tali, en að framkvæma stefnu og huga að öllum afleiðingum hennar er síðan allt annar veruleiki og öllu flóknari. Ég er ekki að segja að við getum ekki búið til stefnur en það er bara ekki hægt að gera það almennilega og faglega í núverandi kerfi án þess að eiga á hættu að hið lagatæknilega vistkerfi landsins fari allt úr skorðum. Kerfið er nefnilega svo ógurlega flókið að jafnvel vel meinandi fólk getur gert illt verra með lagabreytingum. Maður þarf ekki að líta lengra en til Tryggingastofnunar og allra þeirra flóknu lagatæknilegu breytinga sem oft gera illt verra. Til að laga lífsviðurværi þeirra sem eru í viðkvæmustu hópunum hérlendis þarf meira til en bútasaum. Heildræn breyting verður að eiga sér stað og til að hægt sé að framkvæma hana þarf aðgengi að upplýsingum um hvernig þetta kerfi virkar og hverju það á að þjóna.

Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir að nenna að hlusta á okkur. Verum breytingin sem við viljum sjá í samfélaginu okkar. Hristum upp í þessum kerfum og hættum að vera hrædd. — Góðar stundir.