145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mikilvægasti parturinn í svari hæstv. ráðherra var að mikilvægar ákvarðanir biðu, þá væntanlega í ráðherranefndinni, innan þessa málaflokks og að þeim kostnaði sem af þeim hlytist yrði mætt í þinglegri meðferð. Hæstv. ráðherra sagði að þeim yrði að mæta í þinglegri meðferð. Ég er honum sammála um það. Mér finnst mikilvægt að þessi yfirlýsing hans liggi fyrir, alveg eins og mér þótti ákaflega mikilvægt að heyra yfirlýsingu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns allsherjarnefndar, í umræðunni fyrr í dag.

Það breytir ekki hinu að hæstv. ráðherra, sem kann þetta fjárlagafrumvarp utan að og enginn er betur að sér en hann í því, nema hugsanlega hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, vafðist tunga bæði um tönn og höfuð við að svara þessari spurningu: Hvar á taka fé, af hvaða liðum, t.d. vegna móttökumiðstöðvar og kvótaflóttafólks? Hæstv. ráðherra vísaði til velferðarráðuneytisins, þar er einn liður sem heitir innflytjendaráð en honum er ráðstafað með tilteknum hætti. Ég velti fyrir mér hvort það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að taka kostnaðinn vegna kvótaflóttafólksins af öðrum liðum sem tengjast mannúðaraðstoð eins og vegna neyðaraðstoðar. Ég vona að það verði ekki gert, en vil samt segja að þegar ég var utanríkisráðherra tók ég þá þaðan til þess að halda merkinu þegar engir peningar voru til. Það var beiskjublandin aðgerð, en til þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar okkar gerði ég það. Staðan er bara þannig, sérstaklega þegar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að taka 50 hið minnsta, hún lýsti því yfir að hún ætlaði jafnvel að taka fleiri úr þessum skilgreinda flokki, hljótum við að setja upp sérstakan fjárlagalið (Forseti hringir.) því að þetta eru svo stórar upphæðir. Fyrir hinu ber ég mikinn kvíðboga, hvernig við ætlum síðan að mæta þessum kúf, ekki bara á þessu ári heldur á því næsta.