145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er mikilvægt og þess vegna tekur maður eftir því, svo ég byrji bara þar sem ráðherrann sleppti orðinu, varðandi þær 500 milljónir sem þingið gerði tillögu um og var samþykkt, að þessar aðgerðir haldi áfram og það sé þá algjörlega tryggt. Það sem ég hef áhuga á að vita er hvort það næst að klára það á þessu ári, þ.e. meira en nú hefur verið gert á Gjögri, eða hvort fjármagnið flyst allt yfir á næsta ár þannig að þeir sem heima sitja geti verið vissir um að svo sé.

Mig langaði líka að reyna að fá fram einhverjar tölur, þ.e. mismuninn á því sem var varið í nýframkvæmdir — 2 milljarðar í nýframkvæmdir á þessu ári eru mjög lítið. Það þyrfti að koma fram hversu mikill munur er milli ára. Er veruleg aukning eða hvað?

Hafnarframkvæmdir, því var ekki svarað. Það er spurning að draga það hér aðeins upp hvar helstu hafnarframkvæmdir eiga að fara fram og hversu mikið er áætlað í þær.

Síðan er þetta með óarðbæra flugið á þessa litlu staði. Er það tryggt?

Í lokin langar mig að nefna 300 millj. kr. sem eru ætlaðar í fjarskiptauppbyggingu. Eins og innanríkisráðuneytisfólkið þekkir allt er þetta eitt af stóru málunum sem brennur á landsbyggðinni. Það eru í kringum 3.500 heimili og fyrirtæki sem ekki njóta viðunandi fjarskipta og því er afar mikilvægt að sjá til þess að þau verði tryggð með hraði til að tryggja byggð í öllu landinu og nemendur geti komið heim til sín um helgar, en það er víða þannig að þeir geta það ekki af því að þeir geta ekki lært í gegnum tölvuna. Þessar (Forseti hringir.) 300 milljónir, sem þarna eru lagðar til, duga (Forseti hringir.) engan veginn.