145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spurningarnar. Ég þakka þingmanninum fyrir orðin varðandi þróunarsamvinnuna, ég er sammála því að við erum eftirbátar þar, en eins og ég hef farið hér yfir áður er ákveðin ástæða fyrir því. Ég mun leggja fram tillögu vonandi í haust sem miðar að því að við tökum ákveðin skref í þá átt að ná því markmiði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett, en fyrsta skrefið að mínu viti er að reyna að ná meðaltali OECD-ríkjanna. Ég held að skynsamlegt sé að gera þetta með ákveðinni stígandi, fara ekki of geyst og reyna að ná þá samstarfi um að ná þeim tölum.

Norðurslóðirnar eru mjög mikilvægar, það er ekkert verið að gefa neitt eftir þegar að þeim kemur. Það er mikið í húfi þar hvort sem það er bráðnun íssins og áhrif þess, súrnun hafsins eða aðrar loftslagsbreytingar o.s.frv., allt er þetta mikilvægt og skiptir Íslendinga gríðarlega miklu máli. Þar af leiðandi munum við með einum eða öðrum hætti leggja áfram mikla áherslu á það samstarf sem þar er.

Það er margvíslegt og býsna flókið allt þetta samstarf sem kemur af norðurslóðunum. Það eru margir aðilar sem koma að því. Við munum eftir sem áður reyna að tryggja okkar hagsmuni með þeim hætti sem við best getum þegar að því kemur. En auðvitað, eins og fram hefur komið hér áður, vildum við gjarnan hafa yfir meira svigrúmi að ráða þegar kemur að norðurslóðum eða öðrum verkefnum sem við eru að sinna í okkar fámenna utanríkisráðuneyti en með góðu starfsfólki.