145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ánægjulegt að heyra hversu vel hún tekur í þær áherslur sem settar eru fram í frumvarpinu. Það eitt og sér, ef ég ætti að nefna það sérstaklega, er tímamótaáherslubreyting sú sem lýtur að fjölgun sálfræðinga í þeirri þverfaglegu vinnu í heilsugæslunni. Miðað við það breska módel sem ég nefndi í ræðu minni áðan vantar okkur í dag um það bil 21 stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslunni til að uppfylla þær kröfur sem þar eru gerðar og við gerum ráð fyrir að ná því á tveimur árum, vonandi. Við gerum ráð fyrir að bæta inn á næsta ári átta stöðugildum eins og ég gat um áðan.

Varðandi þá beinu fyrirspurn sem hv. þingmaður kom með, um sjúkrahúsið í Stykkishólmi og endurbætur varðandi móttöku sjúkrabíla, hef ég verið talsmaður þess að við komumst til allra slíkra verka. Það er alveg augljóst mál varðandi til dæmis þau áform sem uppi eru í Stykkishólmi að það yrði mikil hagræðing, bæði fyrir sveitarfélagið og ríkið, af þeim framkvæmdum sem þar hafa verið í deiglunni. Upphaflegu framkvæmdirnar voru mjög dýrar og kostnaðarsamar, eitthvað er búið að fara yfir þau áform sem ég þekki ekki alveg út í hörgul. Vandinn er bara sá að fjármunir til þeirra endurbóta, sem voru metnar á mörg hundruð milljónir króna, eru mjög takmarkaðir. Ég nefni það sem dæmi að sú áætlun sem við erum að vinna eftir núna gerir ráð fyrir að við höfum 300 millj. kr. til að hefja undirbúning að byggingu þriggja nýrra hjúkrunarrýma (Forseti hringir.) þar sem þörfin hefur verið metin mest á landinu.