145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hissa á því að við hv. þingmaður séum ekki sammála því að við erum það nú oft og yfirleitt, enda í sama kjördæmi og erum þar, eigum við ekki að segja yfirgnæfandi. Það er undantekning ef við erum ósammála en þarna verðum við einfaldlega að vera ósammála.

En það sem við erum sammála um, við skulum einbeita okkur að því, að tryggja þarf fjármögnun til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum og til að vernda náttúruna. Við þurfum að finna leiðir til þess. Náttúrupassinn, eins og þingmaðurinn nefndi, átti að vera leið til þess. Hann náði ekki fram að ganga og það er bara staða málsins. Við erum hins vegar, eins og ég fór í gegnum áðan í fyrri ræðu minni, þegar byrjuð að gera breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Lægra þrepið er hærra. Við fáum auknar tekjur þar af leiðandi af gistingunni. Við erum að fækka undanþágum og breikka skattstofnana á sama tíma og við erum að einfalda kerfið og gera það þá þannig úr garði að það verði einfaldara fyrir atvinnulífið. Við erum líka með önnur markmið, við erum að uppræta svarta atvinnustarfsemi og koma málum þannig fyrir að auðvelt sé að reka fyrirtæki. Að öllum þessum markmiðum samanlögðum held ég að við séum að vinna þetta á réttan hátt, og svo ég vitni enn og aftur til þeirrar stefnumótunarvinnu sem við erum að ljúka, þar koma fram ákveðnar áherslur hvernig við viljum tryggja uppbygginguna.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sjáum við núna að þar strandar ekki bara á fjármögnuninni, við þurfum að bæta úr skipulagsvinnu sveitarfélaga, það þarf að undirbúa framkvæmdir. Við þurfum að gefa okkur tíma þó að okkur liggi á. Við getum ekki byrjað á þakinu, við verðum alltaf að byrja á að byggja jarðhæðina og það er kannski það sem við höfum brennt okkur á og þar erum við að gera úrbætur á.