145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni til hugarhægðar vil ég minna á það að stjórnarandstaðan lagði fram hugmyndir um frekari tekjuöflun samhliða fjárlagafrumvarpi í fyrra sem nam 40–50 milljörðum. Við vildum gjarnan sjá afgang af fjárlögum meiri og það væri auðvitað mögulegt til dæmis bara með því grundvallaratriði að láta atvinnugreinarnar sem búa við fordæmalausa velsæld núna, eins og sjávarútveg og ferðaþjónustu, greiða sanngjörn gjöld í almannasjóði fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Það er ekki þannig að við séum að taka peninga frá öðrum brýnum samfélagsverkefnum til að gera þetta. Það er þannig að það er mikill undirballans í því sem eðlilegt er, að rukka arðsömustu atvinnugreinar landsins fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum í dag.

Það er rangt að snúa málum þannig og setja þau þannig fram að hér sé verið að slíta matinn frá sveltandi börnum eða einhverjum öðrum sem búa við brýna þörf. Það er þvert á móti þannig að það er mikið viðbótarsvigrúm til tekjuöflunar til þess að tryggja afgang af ríkissjóði.

Varðandi kostnaðargreiningu erum við sammála hv. þingmanni um að auðvitað þyrftu þingmenn að geta fengið að kalla eftir kostnaðargreiningum af þessum toga. Það sýnir hins vegar áhugaleysi ríkisstjórnarinnar að næstum því hálfu ári eftir að þessir láglaunasamningar eru gerðir er félagsmálaráðherra landsins ekki enn þá búinn að láta reikna út hvað það mundi kosta að láta lágmarksbætur almannatrygginga fylgja slíkum samningum. Það er auðvitað ekki við mig að sakast um þetta algjöra verkleysi ríkisstjórnarinnar og áhugaleysi á að láta bæturnar fylgja lágmarkslaunum. Við ráðum ekki yfir því að kalla eftir greiningu frá Tryggingastofnun, það er á valdi ríkisstjórnarinnar, en ég tek þessu sem miklum skömmum hv. þingmanns í garð ríkisstjórnarinnar fyrir áhugaleysi og verkleysi og sinnuleysi gagnvart (Forseti hringir.) því mikilvæga réttlætismáli.