145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar þurfum að fara að takast á við málefni flóttamanna sem siðferðilegt úrlausnarefni en ekki sem aðsteðjandi vandamál fyrir okkur, eitthvað sem stemma þurfi stigu við okkar vegna. Málefni stríðshrjáðra flóttamanna eru mannúðarmál og hinn þungi flóttamannastraumur til Evrópu frá Sýrlandi, Afganistan og fleiri átakasvæðum, aðstæður fólksins og örlög margra þeirra sem ekki hafa komist alla leið hafa hreyft við öllum almenningi í álfunni. Það almenningsálit hefur sett vaxandi þrýsting á stjórnvöld að bregðast við þeim bráða vanda sem við er að eiga.

Því miður hefur ríkisstjórn Íslands dregið lappirnar með hálfvolgum yfirlýsingum um að eitthvað verði gert en síðan hefur lítið gerst og nú eru farin að heyrast áköll frá fagaðilum eins og Rauða krossinum og hjálparstofnunum. Félagsmálaráðherra hefur ákallað almenning um stuðning við sig í málinu en veitir sjálf óljós svör þegar gengið er eftir því hvað skuli gert. Sett er saman ráðherranefnd og síðan tekur við þögnin. Eftir hverju er beðið, herra forseti? Neyðin er núna og þegar neyðin knýr dyra þarf að bregðast við.

Nú hafa 22 þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu, sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er 1. flutningsmaður að, um móttöku á a.m.k. 500 flóttamönnum til Íslands. Í ljósi aðstæðna vona ég að sú tillaga hljóti góðar viðtökur og vandaða umfjöllun í þinginu. Við Íslendingar þekkjum af eigin raun mikilvægi mannúðar og samheldni þegar náttúruhamfarir dynja yfir. Þess vegna vona ég (Forseti hringir.) að við munum núna rétta meðbræðrum okkar og systrum hjálpandi hönd í neyð því að stríð er auðvitað hamfarir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna