145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og hvernig hún leggur fram sitt mál sem leiðir til spurningarinnar sem hún spyr mig um í lokin. Hún segir réttilega eins og við erum mörg sammála um að henni sé annt um Þróunarsamvinnustofnun vegna þess að hún hafi staðið sig vel og við berum öll ábyrgð í þessum heimi og við á Alþingi berum ábyrgð á því að stuðla að því að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum í hremmingum þeirra. Þess vegna hafa menn eins og ég gat um áðan, með síðustu ríkisstjórn, aukið mjög framlag til Þróunarsamvinnustofnunar.

Hv. þingmaður spurði, sem var mjög athyglisvert: Þegar eitthvað hefur reynst vel, af hverju látum við það þá ekki í friði? Af hverju leyfum við því ekki að starfa áfram? Af hverju vill þá hæstv. utanríkisráðherra ráðast á það og breyta? Ég er sammála því orði sem hv. þingmaður notaði að þetta er vitleysa, það er vitlaus forgangsröðun hjá ríkisstjórn að ráðast á þetta.

Við getum líka spurt vegna orða hv. þingmanns um kerfi sem reynast vel og önnur sem reynast ekki eins vel: Af hverju ráðumst við á kerfi sem reynast vel? Af hverju beitir ríkisstjórn sér ekki af meiri krafti fyrir því að breyta kerfi sem er frekar gallað með innbyggðum alls konar tekjutengingum og fleiru slíku í máli sem varðar aldraða og öryrkja og hefur verið töluvert til umræðu í þinginu síðustu daga? Það er ekki forgangsmál sem er rætt á þriðja, fjórða eða fimmta degi þingsins, lagafrumvarp um breytingar á því kerfi. Nei. Það er akkúrat eins og hv. þingmaður nefndi, það er ráðist að kerfi og stofnun sem hefur fengið viðurkenningar opinberra aðila fyrir faglegt og gott starf.