145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála tveimur síðustu ræðumönnum. Það er nánast að mér finnist ég ekki þurfa að koma hér upp aftur.

Innihaldið er það sem skiptir máli, þessi heildstæða nálgun og þar þurfa auðvitað að koma að bæði velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Það vantar í sjálfu sér ekki hugmyndir að góðum úrræðum sem lúta að félagslega miðuðum lausnum til handa því fólki sem er í þessari stöðu. Hlutirnir gerast gjarnan hægar en maður vildi, en ég er ánægð að heyra af hugmyndum ráðherra og hefði gjarnan viljað, eins og fleiri hafa komið hér að, að hún deildi örlítið með okkur, ef hún mögulega getur, hverjar þær eru aðrar en hér kom fram, þ.e. rýmri reynslulausn og einhverja nýja refsitegund nefndi hún.

Á síðasta kjörtímabili komu fram tillögur frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, mig minnir að ein þeirra heiti Góð lausn, sem er lík því verkefni sem sett var á laggirnar í Danmörku á svipuðum tíma og lögreglustjórinn kynnti sína hugmynd. Þar geta fangar fengið meiri félagslega aðstoð meðan á afplánun stendur og þegar líða fer að lokum afplánunar fá þeir einnig félagslega aðstoð frá sveitarfélaginu sem tekur við, en það er eins og kom fram hjá ráðherra ekkert í lögunum sem bannar slíkt.

Við vitum að þessi félagslega sálfræði og sálfræðiaðstoð takmarkast auðvitað við fjármuni sem veittir eru til Fangelsismálastofnunar og eins og við vitum vantar töluvert aukna fjármuni í þau mál.

Eins og hér kom líka fram hafa Norðurlöndin, fyrir utan Ísland, tekið upp betrunarvist með ótvíræðum árangri með fækkun glæpa, fækkun endurkomu og minni kostnaði hjá fangelsum, lögreglu og dómstólum. Ég tek undir þau sjónarmið að verknám, starfsþjálfun og samskipti við fjölskyldu sé lykillinn að betrun. Því miður styður stefna menntamálaráðherra ekki við það sem skyldi.

Við eigum að nálgast fangelsismál út frá hinum mannlega vinkli og hugmyndum um að hjálpa þeim sem hlotið hafa dóm til farsældar í lífinu. (Forseti hringir.) Burt séð frá þeirri staðreynd að slík nálgun skilar sér peningalega er aðalmálið að viðkomandi einstaklingar og þar með allt umhverfi þeirra batnar fyrir bragðið.