145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:42]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er 1. flutningsmaður að og er hér borin fram af 22 þingmönnum á Alþingi Íslendinga. Tillagan kemur fram núna í skugga geigvænlegra atburða sem eiga sér stað í heiminum þegar 60 milljónir manns eru að kalla má á vergangi, á flótta undan hamförum stríðsátaka í heimalöndum sínum.

Við höfum rætt þetta mál á undanförnum dögum og talað um hinn þunga flóttamannastraum í þessu sambandi, en auðvitað eru orð fátækleg þegar verið er að ræða jafn stóra og mikla atburði. Í raun og veru ættum við að tala hér um þjóðflutninga frekar en flóttamannastraum því að það er auðvitað það sem á sér raunverulega stað. Það segir sig sjálft að þegar svo stórir atburðir gerast í mannkynssögunni þá er óhjákvæmilegt að ríki heims í hinum betur megandi hluta veraldar taki sig saman um lausn á vandanum sem við er að eiga. Einstök ríki geta eiginlega ekki í þessu samhengi leyft sér þann lúxus að hafa hentistefnu í málinu eða sitja hjá, skila auðu.

Það er svo sannarlega komið að okkur Íslendingum. Við höfum ekki verið framarlega í flokki í þróunaraðstoð og flóttamannahjálp á undanförnum árum. Það er því sannarlega komið að okkur núna að haga okkur eins og manneskjur, ef svo má segja, og sýna mannlega reisn í þessu samhengi.

Við höfum á síðustu vikum og dögum fylgst með aðstæðum og örlögum þess fólks sem í hlut á og flýr núna stríðshrjáð svæði. Tölur sem við höfum heyrt um fjölda flóttamanna segja okkur auðvitað ákveðinn sannleika, en það er nú einu sinni þannig að fréttamyndirnar segja okkur eiginlega enn stærri sannleika, segja okkur meira en mörg orð hvílík örvænting knýr fólk út í þær aðstæður að fara með ótryggum hætti í leit að betra lífi í Evrópu. Ég ætla ekki að lýsa þeim fréttamyndum sem við höfum séð, við þekkjum þær og við vitum að það er mikill mannlegur harmleikur á bak við hverja eina og einustu.

Íslenskur almenningur hefur brugðist mjög vel við eins og skoðanakannanir sýna og nýstofnaðar vefsíður þar sem stjórnvöld eru ákölluð um að bregðast við í þessu máli. Auglýsingatímar Ríkisútvarpsins í gær báru þess glögglega vitni að íslenskur almenningur hefur látið bifast af þessum atburðum og vill gjarnan fá að opna faðminn og bregðast við. Ákallið er til stjórnvalda, að bregðast við og lýsa sig reiðubúin að taka á móti fleiri flóttamönnum en raunin hefur verið fram til þessa.

Við höfum líka rætt það í þessari umræðu að innflytjendastefna sé eitt. Innflytjendastefna er nokkuð sem stjórnvöld setja í rólegheitum og lýtur að móttöku og aðlögun þeirra sem vilja gjarnan koma til Íslands og festa hér rætur. Innflytendamálefni skarast auðvitað við flóttamannamálefni en það er ekki hægt að draga algjörlega samasemmerki þarna á milli því að hið síðarnefnda lýtur að bráðavanda sem kemur upp eins og við verðum vitni að núna sem kallar á skjótari aðgerðir og markvissari en við leyfum okkur þegar um er að ræða almenn innflytjendamál. Það má segja að núna sé eiginlega þörf fyrir krísustjórnun og krísuviðbrögð í þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir í málefnum flóttamanna.

Það má segja að við stöndum núna frammi fyrir einu stærsta mannúðarmáli sem þessi heimshluti hefur staðið frammi fyrir í áratugi. Við Íslendingar megum ekki falla á þessu prófi. Þetta er prófsteinn á siðferðisstyrk okkar. Það er mælikvarði á siðferðisstyrk þjóðar hvort og hvernig landsmenn taka á móti þeim sem leita aðstoðar í nauðum. Við megum alls ekki falla á þessu prófi.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að við tökum á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum. Ástæðurnar eru mjög vel rökstuddar. Ég ætla ekki að endurtaka þær eða að fara að endurtaka mikið það sem fram hefur komið í umræðunni fram að þessu. Ég vil bara hnykkja á því, virðulegi forseti, að nú um stundir fer efnahagur Íslands ört batnandi. Við erum að rísa upp úr efnahagslægðinni og erum komin í efnahagsbata. Við vorum fyrir fáum dögum að ræða ráðstöfun 15 milljarða kr. sem standa út af frá fyrri forsendum fjárlaga. Við höfum efni á því og við höfum innviði, getu og þekkingu og vilja almennings til þess að rétta hjálparhönd því fólki sem á um sárt að binda og er á landflótta frá hörmulegum aðstæðum. Við eigum að sýna að við erum menn en ekki mýs og taka vel á móti þessu fólki, opna dyr okkar, veita því vináttu, aðstoð og liðveislu við að aðlagast íslensku samfélagi vilji það vera hér til frambúðar. Ef aðstæður lagast í einhverjum af heimalöndum þeirra sem hingað koma þá megum við heldur ekki móðgast þótt fólk vilji fara til síns heima á ný. Það er eðlilegt.

Við Íslendingar búum í landi harðneskjulegrar náttúru sem getur sýnt vald sitt með óvægnum hætti. Við þekkjum af eigin raun mikilvægi mannúðar og samheldni þegar hamfarir herja á eins og náttúruhamfarir sem við höfum nú fengið að upplifa nokkuð ört á undanförnum árum og áratugum. Við kunnum að skipuleggja okkur í hjálparstarfi. Við kunnum að taka á móti fólki og sýna gestrisni og vinarþel þegar það á við. Núna á það svo sannarlega við.

Stríð er hamfarir og þess vegna efast ég ekki um að ef stjórnvöld stíga það skref og taka þá ákvörðun á ríkisstjórnarfundi á morgun að taka á móti fleiri flóttamönnum en verið hefur og þingið tekur vel í þessa tillögu og sú áætlun verður sett á laggirnar um að taka við 500 manns á næstu þremur árum þá efast ég ekki um að bæði þingið og ríkisstjórnin munu eiga stuðning meginþorra almennings í landinu. Ég vona sannarlega að svo megi verða.