145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég verð að segja það að ég varð undrandi á því að lesa þessa skýrslu og sjá hversu rýr svörin voru. Ég bjóst satt að segja við meira kjöti á beinunum og það væri eitthvað í henni sem meira hald væri í.

Það er annað sem hefur mjög mikið verið rætt af hálfu okkar sem teljum að hér sé verið að leggja til slæmar breytingar, þ.e. að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, það er úttektin sem við eigum von á frá DAC strax á næsta ári. Það hefur líka talsvert verið minnst á það hérna hvað þingheimur geti gert til þess að landa þessu máli í einhvers konar sátt, jafnvel án þess að hæstv. utanríkisráðherra komi mjög illa út úr því, og málinu sjálfu til góða, þ.e. þróunarsamvinnunni. Ég held að þegar upp er staðið viljum við flest standa vel að henni þótt okkur greini kannski á um hversu mikla peninga eigi að setja í hana.

Þá hefur verið nefndur sá möguleiki að biðja DAC um að flýta vinnu sinni. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra: Telur hann það mögulegt, er það eitthvað sem þjóðþing Íslendinga getur farið fram á og er líklegt að DAC mundi verða við því?