145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sjónarmið hv. þingmanns eru mjög athyglisverð eins og jafnan þegar hún tekur til máls um hvaðeina liggur mér við að segja. Mér finnst grundvallaratriðið í þessu máli öllu þetta: Það er engin sjáanleg ástæða fyrir þessu. Það er engin málefnaleg ástæða fyrir þessu. Hvert má rekja málið? Það má rekja málið til upphafs kjörtímabilsins þegar sett var niður niðurskurðarnefnd. Hún setti sér tvíþætt markmið. Í fyrsta lagi að skera niður þar sem hún gæti, í öðru lagi að sameina stofnanir.

Það varð minna úr yfirlýsingum þeirra sem í nefndinni sátu heldur en efni stóðu til. Jú, vissulega var vaðið með sveðjuna og komið til baka með hana blóðuga. En hvar bar hún fastast niður? Í þróunarsamvinnugeiranum. Það var ráðist í að skera niður framlög langt umfram það sem Alþingi Íslendinga hafði skuldbundið sig til að reiða af höndum fram til okkar ágætu samstarfslanda.

Í öðru lagi var því lýst yfir þá að meðal kandídata sem væri mjög fýsilegt að skoða með það fyrir augum að hreinlega slá viðkomandi stofnun af væri ÞSSÍ. Hún var ekki varin þá. Ráðherrann varði ekki þessa stofnun sína. Hann kemur úr flokki sem hafði verið mjög fjandsamlegur þessum málaflokki í öllum yfirlýsingum þegar slíkar umræður stóðu yfir.

Nefndin sem vélaði um stofnanasameiningar hafði ákaflega lítið upp úr því krafsinu, en þessi stofnun lá hins vegar vel við höggi, hún átti fáa vini þá í stjórnarliðinu. Þetta er ástæðan. Þetta er ástæðan fyrir því að verið er að þrýsta ríkisstjórninni út í þetta. Hún hefur engan fjárhagslegan ábata af þessu, en það er hægt að krossa í kladdann og segja: Einni stofnun færra. Það er allt og sumt. Þetta er nú dálítið sorgleg niðurstaða.