145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt mál og margar ágætar tillögur sem hér koma fram. Mér finnst svolítið vanta vinkilinn á landsbyggðina í þessari þingsályktunartillögu og kalla eftir upplýsingum um hvaða stuðning hv. þingmaður sér fram á að hægt sé að veita inn á þau svæði sem kannski teljast utan markaðssvæða. Víða um land hefur sem betur fer atvinnulífið verið að styrkjast og eflast. Ég get tekið sem dæmi sunnanverða Vestfirði þar sem laxeldi hefur aukist mikið. Þar er orðinn skortur á húsnæði fyrir það fólk sem vill setjast að á því svæði og mikið orðið um að húsnæði hafi verið breytt í sumarhús og annað því um líkt og ekki er húsnæði til staðar.

Einstaklingar hafa kannski ekki burði til að fara sjálfir að reisa húsnæði vitandi það að ef menn byggja húsnæði á þessum stöðum utan markaðssvæða er eignin raunverulega verðfelld um 20–30% í endursölu um leið og fasteignamat er komið á eignina. Þörfin er engu að síður til staðar.

Hvað sér hv. þingmaður fram á að hægt væri að gera með einhverjum stuðningi ríkisins til að stuðla að íbúðabyggingu á landsbyggðinni á þeim stöðum sem markaðurinn er ekki sambærilegur og á höfuðborgarsvæðinu?