145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[12:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú vitum við að sjálfsögðu ekki hvort það frumvarp sem er hér til umræðu nær fram að ganga og verður að lögum, en ef svo er mun það geta haft afdrifaríkar afleiðingar. Afleiðingarnar snúa að lýðheilsusjónarmiðum, að lýðheilsu í landinu, og það er málaflokkur sem heyrir undir hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég mun í ræðu minni um þetta mál fjalla um aðkomu ráðherrans að þessu máli og vil fá að heyra sjónarmið hans og hvernig hann bregst við eigin orðum sem er að finna á vef Stjórnarráðsins í janúarmánuði árið 2014. Ég vil beina spurningum til hans sem fela í sér hans eigin ummæli og þingið á kröfu á að fá svör hans við því. (Forseti hringir.) Þingmenn eiga að taka sig alvarlega, ráðherrar eiga að taka sig alvarlega. Ef ráðherrann mætir ekki er það ekki gert. (Forseti hringir.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir að beina því til ráðherrans að koma hingað til fundarins (Forseti hringir.) en ég krefst þess að hlé verði gert á fundinum þar til ráðherrann mætir.