145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[12:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þá ósk eða þá kröfu að hæstv. heilbrigðisráðherra sé viðstaddur þessa umræðu. Ég þykist nokkuð viss um að meðal þeirra röksemda gegn því frumvarpi sem við erum að fara að ræða hér á eftir sé einmitt sú staðreynd að áfengisneysla er, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, þriðji stærsti áhættuvaldur fyrir heilsu mannkyns. Þetta er ekkert smáræði og því eðlilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra sé viðstaddur umræðuna og taki þátt í henni.

Ég vil líka nota tækifærið og mótmæla því sem hv. þm. Karl Garðarsson sagði um að hér væri allt gert til þess að tefja fyrir þessu máli. Hér var í fyrradag ítarleg og góð umræða um framtíðargjaldmiðil landsins. (Forseti hringir.) Er eitthvað skrýtið að þingmenn vilji ræða slíkt mál vel? Það er ekki málþóf.