145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:40]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er glöð yfir að við séum sammála um þetta vegna þess að mér finnst þetta hárrétt. Mér finnst það ekki rétt út frá því hvernig við höfum dreift vínbúðum um landið að aðgengi sé takmarkað. Þegar ég drakk áfengi man ég vel að ef mig langaði í áfengi á sunnudegi og vínbúðir voru lokaðar var ekki mikið mál að verða sér úti um það. Það var ekkert svartamarkaðsbrask, það var bara farið í það mál og því reddað. Ég held að aðgengissjónarmiðið sé ekki rétt. Ég held hins vegar að menningin og það samtal sem fólk á og uppvakning sem er að verða hægt og rólega í samfélaginu hafi miklu meiri áhrif. Ég held að það að fara í gegnum þessa umræðu muni færa okkur á enn þá (Forseti hringir.) betri stað og hef mikla trú á því.