145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru nú nokkrar spurningar. Ég ætla að reyna að muna þær. Skilyrðin í frumvarpinu — í sjálfu sér hef ég ekki athugasemdir við þau, þau eru alveg þokkaleg.

Hvað varðar mismunun ríkisins gagnvart sveitarfélögum — jú, það er þannig að ÁTVR hefur ákveðna stefnu hvað varðar fjölda íbúa eða eitthvað slíkt. Ég man ekki til þess að það hafi gerst um langa hríð að ef íbúar sveitarfélags hafa beðið um það hafi þeirri ósk verið neitað. Nú er ég að tala eftir minni að vísu, en það er kannski fjölgunin á þessum útsölustöðum sem við erum að tala um hér, fjölgunin kemur til úti á landi og kom í mjög mörgum tilfellum í staðinn fyrir póstútibúin sem dreifðu þessari vöru áður. Nú er reyndar búið að leggja þau af mörg.

Ég styð ekki mismunun milli sveitarfélaga. En ég nefni sem dæmi einn af mínum uppáhaldsstöðum, (Forseti hringir.) Árneshrepp á Ströndum, með 36 íbúa; ég vænti þess að sé dálítið stirt að setja þar upp áfengisverslun. Ég reikna ekki með því að kaupmaðurinn mundi gera það heldur.