145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:50]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóða ræðu. Hv. þm. Páll Valur Björnsson kom aðeins inn á það sem ég ætlaði að ræða, sem er það hvort hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir sé sammála mér í því að áður en við förum að hugsa um að auka aðgengi að áfengi þurfum við að hugsa hvar við getum spyrnt við fótum, m.a. hvað varðar þá þingsályktunartillögu sem við ræddum í sérstakri umræðu í vikunni. Þurfum við ekki að skýra betur og efla forvarnastarf til að draga úr ölvunarakstri, af því það er allt of oft sem við sjáum að fólk fær sér einn bjór, sest undir stýri og finnst allt í lagi að keyra? Maður er hræddur við að þetta sé einn af þeim þáttum sem við sjáum aukningu á ef aðgengið verður meira. Tíminn er búinn.