145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur kærlega fyrir svarið. Forvarnir eru mjög stór og mikilvægur þáttur í þessum málum. Ég hef fengið nokkra pósta frá einstaklingum úti í bæ sem fylgjast með umræðunni og finnst miklu máli skipta að koma skoðunum sínum á framfæri, sem er mjög gott.

Það kom ein fyrirspurn í dag þar sem verið var að tala um að hið góða forvarnastarf sem við höfum á Íslandi snúist um heimili og skóla, öflugt innra eftirlit og huldar heimsóknir starfsmanna áfengisbúðarinnar og það að samfélagið hefur verið mjög öflugt í forvarnastarfinu. Er hv. þingmaður ekki sammála því að mikilvægt sé að halda í þann góða árangur og efla enn frekar það góða starf sem hefur verið unnið? Er hún sammála mér í því að sá árangur sem við höfum náð, m.a. hefur dregið úr unglingadrykkju, snúist frekar um forvarnastarfið en það (Forseti hringir.) sem alltaf er verið að tala um, að unglingadrykkja hafi minnkað (Forseti hringir.) þrátt fyrir aukið framboð verslana.